Framsóknarkonur fagna tilkomu samræmdra framboðsreglna

Landsstjórn landssambands framsóknarkvenna fundaði á Akureyri í gær.
Landsstjórn landssambands framsóknarkvenna fundaði á Akureyri í gær.

Á landsstjórnarfundi landssambands framsóknarkvenna (LFK) á Akureyri í gær, voru samþykktar tvær ályktanir. Annars vegar ályktun um kynjajafnrétti á framboðslistum Framsóknarflokksins til Alþingiskosninga og hins vegar um launamun kynjanna. Fundurinn fagnar tilkomu samræmdra framboðsreglna sem samþykktar voru á vorfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn er fyrsti og hingað til eini stjórnmálflokkur landsins sem samþykkt hefur samræmdar prófkjörsreglur. Landsstjórnin fagnar sérstaklega reglum sem snerta hlut karla og kvenna á framboðslistum. Enn eitt skref hefur nú verið stigið í átt að frekara jafnrétti kynja á framboðslistum Framsóknarflokksins. Landsstjórnin áréttar að reglur þessar eiga að vera í sífelldri endurskoðun. Landsstjórn LFK hefði viljað ganga enn lengra til þess að jafna hlut kynja í efstu sætum framboðslistanna. Þar sem efstu sæti framboðslista hafa að jafnaði mest vægi er afar brýnt að aðilar af sitt hvoru kyni skipi þau sæti. Með því tryggir Framsóknarflokkurinn að hæfileikar beggja kynja fái notið sín landi og þjóð til heilla, segir í ályktuninni.

Ályktun um launamun kynjanna

Þá lýsir Fundur í Landsstjórn landssambands framsóknarkvenna yfir verulegum áhyggjum af þeirri neikvæðu þróun sem orðið hefur varðandi launamun kynjanna. Samkvæmt launakönnun SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu frá september 2011 hefur launamunur kynjanna aukist úr 9,9% í 13,2% á milli ára. Í annarri greiningu sem PWC gerði  á launamun kynjanna, yfir september 2011, er niðurstaðan sú að karlar eru með 6,6% hærri föst laun en konur að teknu tilliti til helstu áhrifaþátta. Það er algjörlega óásættanlegt að í íslensku samfélagi þrífist óhagganlegt misrétti í launagreiðslum. Landsstjórn LFK lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur þrátt fyrir fögur fyrirheit um jafnrétti og norræna velferð ekki náð nokkrum árangri í baráttunni við þetta óréttlæti. LFK krefst þess að ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur horfi í eigin barm og útrými þessum launamun sem getur ekki átt sé nokkra réttlætingu í íslensku samfélagi á 21. öldinni. Sömu laun fyrir sömu vinnu er ófrávíkjanleg krafa, segir í ályktuninni.

 

 

 

Nýjast