Steypustöðin á Dalvík framleiðir nú sérstakar hleðslueiningar fyrir Hlíðarvelli nýja móttöku- og flokkunarstöð Gámaþjónustu Norðurlands á Akureyri. Legó kubbunum verður raðað upp á Hlíðarvöllum til að afmarka bása fyrir hin ýmsu endurvinnsluefni sem Akureyringar og aðrir Eyfirðingar flokka frá öðrum úrgangi og tekið er á móti í stöðinni, en þessa dagana rís síðari áfangi stöðvarinnar við Hlíðarfjallsveg og verður hún opnuð í júní.
Við erum á síðustu metrunum að reisa flokkunarstöð okkar á Hlíðarvöllum og stefnum á að opna hana formlega í júní. Við ákváðum að steypa þessa kubba í samstarfi við Steypustöðina á Dalvík og þetta gengur virkilega vel. Það er um að gera að framleiða það á svæðinu sem hægt er það hljóta allir að hafa hag af því segir Helgi Pálsson rekstrarstjóri Gámaþjónustu Norðurlands.