Fyrsta brekkan í Hlíðarfjalli hefur verið opnuð en sú er eingöngu fyrir skíðaæfingar alpagreina. Þá hefur gönguskíðasvæðið einnig verið opnaða og segir Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli að skíðafólk sé aðeins farið að koma í fjallið.
„Við stefnum á að opna 11. desember, en munu opna neðra svæðið fyrr og við fyrsta tækifæri ef aðstæður leyfa. Það hefur gengið vel að framleiða snjó hjá okkur undafarið en lítið bætist við að náttúrulegum snjó,“ segir Brynjar.
Reyna að koma fleiri brekkum í gang
Ágætis spor er á gönguskíðasvæðinu og nýtir ákafasta gönguskíðaskíðafólkið sér fínar aðstæður þar. Brynjar segir að hægt sé að opna neðra svæðið með framleiddum snjó en síður það efra. „Við eru á fullu að framleiða snjó og reynum að koma fleiri brekkum í gang þannig að hægt verði að opna sem fyrst fyrir almenning. Það kemur svo í ljós í kringum mánaðamót hvort okkur takist að opna fyrr eða 11. desember verði fyrsti dagurinn,“ segir hann.