Framkvæmdir við fyrsta áfanga flughlaðs á Akureyrarflugvelli hefjast í vikunni þegar byrjað verður á færslu olíutanka og uppsetning nýrrar rotþróar. Einnig er verið að undirbúa að yfirfara hönnunargögn á seinni áföngum á flughlaðinu. Stækka á flughlaðið á Akureyrarflugvelli til að koma á móts við aukin umsvif og öryggi vallarins.
Þá er áætlun að hefja viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli ásamt hönnun breytinga á núverandi flugstöð til að mæta aukinni þörf vegna millilandaflugs. Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia,segir í svari við fyrirspurn blaðsins að vonandi verði hægt að bjóða byggingu flugstöðvarinnar út í febrúar á næsta ári, „en það veltur á fjárveitingum til verksins,“ segir Sigrún.
Markmið framkvæmdanna er að bæta aðstöðu og þjónustu við flugfarþega. Viðbyggingin verður 1.000 fermetra stálgrindarhús fyrir millilandaflug og aðlögun núverandi flugstöðvar að breyttri notkun.