Þriggja ára áætlun fyrir Akureyrarbæ er nú til lokaafgreiðslu. Fyrri umræða um áætlunina hefur farið fram í bæjarstjórn og áætlunin hefur einnig verið rædd í bæjarráði en lokaafgreiðsla verður á fundi bæjarstjórnar á morgun, þriðjudag. Ráðgert er að framkvæma fyrir tæpa 5 milljarða króna á tímabilinu. Ef tiplað er á helstu framkvæmdum má nefna að stefnt er að opnun menningarhússins Hofs á vormánuðum árið 2009 og sama ár á að ljúka byggingu við íþróttahús fyrir fimleika við Giljaskóla. Þá er stefnt að því að taka fyrsta áfanga Naustaskóla í notkun árið 2009. Um 3,8 milljarðar króna eru á vegum bæjarsjóðs en um einn milljarður vegna fráveitu og Norðurorku. „Þetta eru gríðarlegar framkvæmdir en Akureyrarbær stendur mjög vel," sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri. Hún segir að rekstur sveitarfélaga sé farinn að taka verulega í og nauðsynlegt sé orðið að auka tekjustofna sveitarfélaganna.
Í þriggja ára áætluninni er deildarstjórum hjá Akureyrarbæ gert að spara 120 milljónir króna á ári. Sigrún Björk segir það um 2% af veltu bæjarins og menn þurfi einfaldlega að gaumgæfa hvar hægt er að koma við sparnaði fyrir sveitarfélagið