Frambjóðendur Sjálfstæðis- flokksins tóku daginn snemma

Þeir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri sem skipa efstu sæti flokksins við komandi bæjarstjórnarkosningar heimsækja vinnustaði í dag. Ráðgert er að þeir heimsæki á annan tug fyrirtækja og stofnana á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Sigrún Björk Jakobsdóttir oddviti D-listans segir nauðsynlegt fyrir frambjóðendur að heimsækja fyrirtæki og stofnanir.  

Tilgangurinn sé í raun tvíþættur, starfsfólk geti milliliðalaust komið á framfæri sínum sjónarmiðum við frambjóðendur. Þeir geti sömuleiðis kynnt sín áherslumál á komandi kjörtímabili. Sigrún Björk segir slíkar heimsóknir í senn ánægjulegar og lærdómsríkar. "Í okkar stefnuskrá er rík áhersla lögð á atvinnumálin og við finnum vel að þessi málaflokkur er ofarlega á blaði hjá bæjarbúum. Þess vegna er svo mikilvægt að heimsækja vinnustaði og ræða málin augliti til auglitis við fólk. Við höfum á undanförnum vikum talað við starfsfólk margra fyrirtækja og áfram verður haldið á næstu vikum. Við skipulögðum daginn í dag vel og tókum hann snemma. Á morgun höldum við almennan fund í kosningamiðstöðinni okkar, þar sem atvinnumálin verða einmitt rædd," segir Sigrún Björk í fréttatilkynningu.

Nýjast