Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að aðgerðir stjórnvalda komi illa við fyrirtækið, en tilfærsla innan greinarinnar bitni mjög á starfseminni og störf flytjist úr bænum, m.a. vegna strandveiða. Mikill fjöldi umsókna hefur borist um sumarstörf hjá Brim á Akureyri nú í vor, umtalsvert fleiri en undanfarin ár að sögn Ágústar Torfa Haukssonar framkvæmdastjóra. Hann segir að á síðasta ári hafi alls verið ráðnir 43 sumarstarfsmenn, en sökum niðurskurðar á kvóta sé ekki gert ráð fyrir að ráða nema 15 starfsmenn í sumar.
Ágúst Torfi segir að fyrirtækið sé í svipaðri stöðu og önnur sjávarútvegsfyrirtæki. „Miklar tilfærslur á aflaheimildum milli útgerðarflokka koma illa við fyrirtækið ásamt miklum niðurskurði aflaheimilda í helstu tegundum undanfarin ár. Þessar tilfærslur vega að rekstrargrundvelli þeirra fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa sérhæft sig í útgerð stærri skipa, með örugga hráefnisöflun og með stöðugleika í afhendingum afurða til viðskiptavina að leiðarljósi. Frystihúsið hér á Akureyri hefur sérhæft sig í framleiðslu á ferskum afurðum og hefur hingað til getað státað af miklu afhendingaröryggi sem okkar kúnnar í Evrópu kunna vel að meta. Ef fer fram sem horfir varðandi stefnu stjórnvalda þá er vegið að okkar starfsemi hér á Akureyri, það er alveg ljóst," segir Ágúst Torfi.
Slæm kvótastaða verður þess líka valdandi að togaranum Mars RE, sem áður hét Árbakur, verður lagt tímabundið, en hann er í sinni síðustu veiðiferð að sinni. „Staðan í íslenskum sjávarútvegi er grafalvarleg um þessar mundir og vandséð hvort stjórnvöld hafi hag þjóðarinnar að leiðarljósi í þeim aðgerðum sem þau koma fram með. Tilfærsla starfa innan greinarinnar, með stjórnvaldsaðgerðum, kemur illa niður á starfseminni hér. Aðgerðir eins og strandveiðarnar verða beinlínis til þess að störf flytjast frá Akureyri og Eyjafirði til annarra svæða. Við bregðumst við þessum aðstæðum á þann hátt sem við teljum að komi fyrirtækinu og starfsfólki þess best um leið og við reynum að verja þau viðskipti og þá markaði sem búið er að byggja upp," segir Ágúst Torfi.