Forstjóri Rafs á Akureyri hlaut Umhverfisverðlaun LÍÚ

Árni Bergmann Pétursson, hugvitsmaður og forstjóri Rafs ehf. á Akureyri, hlaut í dag Umhverfisverðlaun LÍÚ 2009 fyrir fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu við svokallaða rafbjögunarsíu. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, afhenti Árna verðlaunin á aðalfundi LÍÚ í dag.  

Notkun rafbjögunarsíunnar um borð í fiskiskipum hefur ekki aðeins kveðið niður truflanir í rafkerfum þeirra heldur einnig leitt til allt að 10% olíusparnaðar með tilheyrandi minnkun útblásturs. Það staðfesta m.a. mælingar úr skipum Þorbjarnar hf. í Grindavík, þar sem þessi búnaður hefur verið settur upp. Iðnlánasjóður lagði Árna og fyrirtæki hans lið í upphafi og veitti víkjandi lán til þessa þróunarverkefnis. Nýsköpunarsjóður tók síðar við hlutverki Iðnlánasjóðs og varð til þess að ýta rannsóknarverkefninu endanlega úr vör.

Sjálft verkefnið tók hins vegar mun lengri tíma en reiknað var með enda „margslungin stærðfræðiþraut" svo notuð séu orð hugvitsmannsins sjálfs. „Við lausn hennar naut ég frábærrar aðstoðar  starfsfólks Rafhönnunar hf., einkum þó  verkfræðinganna Jóns Más Halldórssonar  og  Kristjáns Vals Jónssonar," segir Árni. Hann er þakklátur LÍÚ fyrir þessa viðurkenningu sem hann segir um leið viðurkenningu fyrir Raf ehf. og  HBT á Ásbrú í Reykjanesbæ, þar sem búnaðurinn er nú framleiddur. Afhending Umhverfisverðlauna LÍÚ er orðinn fastur þáttur í störfum aðalfundar samtakanna. Verðlaunin voru nú afhent í ellefta sinn.

Nýjast