Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir og eiginmaður hennar Björn Skúlason, slógu í gegn við útskrift Vísindaskóla unga fólksins sem lauk föstudaginn 27. júní. Þau svöruðu fjölda spurninga sem nemendur höfðu sent embættinu, allt frá spurningum um uppáhaldslit hennar til þess hvort henni þætti Alþingi starfa vel. Alls 85 börn útskrifuðust að þessu sinni og er þetta ellefta starfsár skólans. Vísindaskólinn er rekinn af Rannsóknamiðstöð HA.
Að venju var boðið upp á fjölbreytt þemu. Að sögn Sigrúnar Stefánsdóttur og Dönu Jónsdóttur, sem sjá um skipulagningu skólans og utanumhald, er alltaf erfitt að spá fyrir um hvaða þemu njóta mestrar hylli. Meðal verkefna sem boðið var upp á var fræðsla um störf Alþingis og féll það í mjög góðan jarðveg. Gömul vinnubrögð voru líka vinsæl og ekki síður gervigreindin sem er að verða allsráðandi í samfélaginu.
Börn á aldrinum 11–13 ára geta skráð sig í Vísindaskóla unga fólksins og eru flestir nemendur af Eyjafjarðarsvæðinu. Hins vegar koma nemendur alls staðar að, sumir frá útlöndum.
Mikil áhersla er lögð á lifandi kennslu og að opna augu nemenda fyrir nýjum áskorunum og að reyna að láta þau stíga út fyrir þægindarammann. Kennarar koma víða að og segja þær stöllur að þar sé valinn einstaklingur í hverju sæti. Skólinn er styrktur fjárhagslega af mörgum aðilum, meðal annars Akureyrarbæ, Samherja, Norðurorku og fjölda annarra fyrirtækja og félaga. Sigrún og Dana vilja sérstaklega þakka kennurum og styrktaraðilum fyrir að gera skólann að því sem hann er í dag.