Forseti bæjarstjórnar segir vert að skoða yfirtöku á flugvellinum

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson

Eins og Vikudagur greindi frá í síðustu viku vill Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, skoða þann möguleika að bærinn taki yfir rekstur Akureyrarflugvallar. Málefni Akureyrarflugvallar voru til umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Gunnar sagði í fundi bæjarstjórnar að hann hefði ekki nokkra trú á því að Isavia hafi áhuga á að byggja flugvöllinn upp.

Í samtali við Vikudag segir Gunnar það hafi aldrei verið gerð viðskiptaáætlun um rekstur Akureyrarflugvallar og hvort þetta sé raunhæfur möguleiki.  

„Og ef þetta er raunhæfur möguleiki, hvað þurfi þá til. Það hefur verið fullyrt í okkar eyru að við þurfum 300-500 þúsund farþega á ári svo flugvöllurinn verði sjálfbær í rekstri. Á síðasta ári fóru um 200 þúsund manns um flugvöllinn og því þarf ekkert mikla aukningu til að koma fjöldanum upp í þá tölu sem þarf til. Það yrði þá í okkar höndum hvernig við myndum markaðsetja svæðið,“ segir Gunnar. „Ég sé ekkert að því að skoða þetta alvarlega og velta þessu rækilega fyrir okkur.“

Uppbygging kostar á við einn grunnskóla

Á aðalfundi Eyþings sem fram fór á dögunum voru kynntar niðurstöður úr skýrslu sem Efla vann fyrir stjórn Eyþings um hvað þurfi til að fara í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli svo hann geti fúnkerað sem millilandaflugvöllur. Gunnar segir að í skýrslunni komi fram að kostnaður við uppbyggingu sé ígildi eins grunnskóla eða í kringum 3 milljarða króna. „Þá veltur maður því fyrir sér hvort það séu einhverjar leiðir til að koma þessu í gegn með öðrum hætti en að bíða eftir að ríkið leggi til fjármagnið,“ segir Gunnar. Hann segir að full samstaða sé á meðal bæjarfulltrúa að búa til viðskiptamódel um rekstur flugvallarins og hvort bærinn geti staðið undir því að reka hann. „Ég held að það sé nokkuð ljóst að við munum fara í þessu vinnu miðað við umræðurnar á bæjarstjórnarfundinum og það sé þverpólitísk samstaða um þetta mál. Það er ekkert verra en að bíða út í hið óendanlega,“ segir Gunnar.

Skaðar ekki skoða þennan möguleika

Halla Björk Reynisdóttir

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, hóf umræður um málefni Akureyrarflugvallar á síðasta bæjarstjórnarfundi. Þar sagði Halla Björk að hún væri tilbúinn til að skoða þá leið að Akureyrarbær tæki yfir reksturinn ef ríkið og Isavia dragi lappirnar og hafi ekki trú á verkefninu.

„Það er alveg einsýnt að það skaðar ekki að skoða þennan möguleika og vinna slíka áætlun til að taka svo afstöðu til,,“ segir Halla Björk í samtali við Vikudag. Hún bendir á að núna sé einstakt viðskiptalegt tækifæri til að byggja upp flugvöllinn. „Og þannig afla tekna fyrir samfélagið.“  

Nýjast