Fleiri leituðu aðstoðar fyrir jólin nú en áður

Um 200 fjölskyldur nutu aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir jólin og á fimmta hundrað manns leitaði til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar að þessu sinni.  Allir sem  óskuðu aðstoðar fengu matarpakka og gjafakort með ákveðinni upphæð í verslunum.  

Jón Oddgeir Guðmundsson hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir að að mun fleiri hafa leitað eftir aðstoð nú en fyrir jólin í fyrra , þeir voru um 200 talsins nú, 150 fengu aðstoð fyrir jólin 2008 og um 100 manns árið á undan, 2007.  „Það var heilmikið að gera hjá okkur, ég var að bæta í búrið alla úthlutunardagana.  Við höfum pláss í kjallara Glerárkirkju og það hefur dugað fram til þessa, en var greinilega orðið of lítið miðað við umfangið fyrir jólin nú," segir Jón Oddgeir.  Þeir sem nutu aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar fengu matarpakka þar sem m.a. var kjöt og aðrar matvörur auk úttektarkorts.  Jón Oddgeir segir að öryrkjar og einstæðar mæður hafi í töluverðum mæli leitað eftir aðstoð, „en það er greinilegt að margir í bæjarfélaginu hafa það ekki gott, við sáum mörg ný andlit að þessu sinni, gæðunum virðist nokkuð misskipt," segir Jón Oddgeir.

Jón Berta Jónsdóttir hjá Mæðrastyrksnefnd segir að aukning hafi orðið á milli ára í hópi þeirra sem óskuðu aðstoðar nefndarinnar fyrir jólin.  „Það var mikil aukning á milli ára hjá okkur í fyrra, þ.e. á milli áranna 2007 og 2008 en ekki eins mikil núna.  Það var mikið um fólk sem aldrei hefur leitað til okkar og ég veit að til okkar leitar enginn að gamni sínu.  Það eru erfið og þung spor fyrir marga að leita á náðir annarra," segir Jóna Berta.

Hún segir Mæðrastyrksnefnd njóta mikils velvilja, fyrirtæki, stofnanir, félög og einstaklingar hafi lagt nefndinni lið fyrir jólin líkt og fyrri ár.  „Það hafa margir reynst okkur vel og fyrir það erum við afar þakklátar.  Þar sem margir lögðust á árar með okkur gátum við gert vel við okkar fólk að þessu sinni og við vonum að geta veitt aðstoð áfram, en höfum ekki gert dæmið upp og vitum því í raun ekki hvert framhaldið verður.  Við erum þreyttar , þetta var mikil törn, en ánægðar í hjarta okkar fyrir þann velvilja sem við höfum fundið fyrir," segir Jóna Berta.

Nýjast