Fleiri gestir og meiri útlán hjá Amtsbókasafninu

Gestum Amtsbókasafnsins á Akureyri fjölgaði um 4% á milli áranna 2008 og 2009, en í fyrra komu um 127 þúsund gestir á safnið.  Útlán jukust  í takt við fleiri gestakomur. Flestar bækur voru lánaðar út í júlí. Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður segir að jafnan sé líflegt á safninu og það sé ánægjulegt hversu margir sæki það heim.  

Útlán voru í fyrra rétt tæplega 200 þúsund talsins og þá voru 17.815 útlán skráð í heimsendingu. Tæplega 300 manns, mest eldri borgarar og þeir sem ekki komast ferða sinna, fá reglulega sendingar frá bókasafninu. Sá einstaklingur sem var hvað stórtækastur á gögn safnsins fékk nákvæmlega 444 titla senda heim til sín, en um var að ræða hljóðbækur.

Langmest er lánað af prentuðu efni, bókum og tímaritum, en 89% útlána eru af þeim toga, DVD-diskar 8% og tónlist 1% svo dæmi séu tekin. Til samanburðar má nefna að á bókasafninu í Hafnafirði eru 10% útlána DVD-diskar og 4% tónlist, en í Kópavogi eru DVD-diskar 6% allra útlána og 2% tónlist.

Aðsókn að safninu í janúar er heldur lakari en var í sama mánuði árið 2009, en Hólmkell segir að ef til vill ráði EM í handknattleik þar einhverju um. Þá daga sem íslenska landsliðið lék voru jafnan fáir gestir á safninu.

Nýjast