Flautað til leiks í 1. deild karla í knattspyrnu

Þórsarar hefja leik á heimavelli í dag. Mynd: Sævar Geir.
Þórsarar hefja leik á heimavelli í dag. Mynd: Sævar Geir.

Flautað verður til leiks á Íslandsmótinu í 1. deild karla í  knattspyrnu í dag og er heil umferð á dagskrá. Stórleikur umferðarinnar verður á Þórsvelli kl. 14:00 er heimamenn í Þór taka á móti Leikni, en báðum liðum er spáð velgengni í sumar. KA hefur leik á útivelli gegn ÍR á sama tíma. Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segir liðið setja stefnuna á að fara rakleiðis upp í efstu deild á ný. „Það er ekkert leyndarmál að við ætlum að stoppa stutt við í þessari deild. Við setjum þá pressu á okkur sjálfa að koma okkur aftur upp á meðal þeirra bestu,“ sagði Páll Viðar í samtali við Vikudag. Um leikinn gegn Leikni í dag segir Páll.

„Við erum fyrst og fremst afskaplega spenntir yfir því að hefja mótið og fáum verðugan andstæðing í fyrsta leik. Þetta er vel skipulagt og gott lið en ég er á því að við séum með betra lið. Við eigum að vinna Leikni á heimavelli og það kemur ekkert annað til greina en sigur. Við ætlum að halda uppteknum hætti hér á heimavelli og ekki hleypa liðum frá okkur með stig í farteskinu,“ segir Páll.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA, segir mikinn spenning í liðinu fyrir sumrinu. „Okkur hlakkar til að byrja eftir langt og strangt undirbúningstímabil sem er að baki. Við teljum okkur vera klára í slaginn,“ sagði Gunnlaugur. Honum líst ágætlega á að hefja mótið gegn ÍR á útivelli. „Við byrjuðum í Breiðholtinu í fyrra líka og það leggst bara vel í okkur. Það er fínt að byrja fyrstu leikina á útivelli og gefa grasinu á Akureyrarvelli meiri tíma til þess að ná sér alveg góðu fyrir fyrsta heimaleikinn,“ segir Gunnlaugur.

Nánar er rætt við þá Pál Viðar og Gunnlaug um komandi tímabil í 1. deildinni í nýjasta tölublaði Vikudags.

 

Nýjast