Fjórir kórar og einsöngvarar á Söngkvöldi í Dalvíkurkirkju

Söngkvöld verður haldið í Dalvíkurkirkju miðvikudaginn 10. desember nk. kl. 20.30, þar sem fram koma kórar af svæðinu ásamt einsöngvurum.  

Í Dalvíkurbyggð eru starfræktir sjö kórar og munu fjórir þeirra koma fram á söngkvöldinu og syngja þrjú jólalög hver. Sönghefðin er sterk á svæðinu og hefur hún alið af sér fjölda frábærra söngvara og munu tveir þeirra, Matthías Matthíasson og Kristjana Arngrímsdóttir koma fram á söngkvöldinu.  Einnig koma fram; Kór Dalvíkurkirkju, Samkór Svarfdæla, Karlakór Dalvíkur og Mímiskórinn. Gestir fá einnig tækifæri til að taka undir í fjöldasöng sem Magnús G. Gunnarsson prestur stjórnar. Þetta er frábært tækifæri til að koma saman, syngja og setja sig í réttu stellingarnar fyrir jólin. Aðgangur er ókeypis og allir hvattir til að koma og njóta saman jólastundar. Að auki verður söngkvöldinu útvarpað á tíðninni FM 102,3.

Nýjast