Fjórir eru í einangrun á Norðurlandi eystra vegna kórónuveirusmits og fjölgar þeim eitt frá því í gær. Þrír voru í einangrun í gær á Akureyri en ekki er ljóst hvort fjórða tilfellið sem greindist í gær sé einnig í bænum. Smit kom upp hjá starfsmanni Lundarskóla á Akureyri um helgina og verður engin kennsla hjá 1.-6. bekk fyrr en á fimmtudag meðan unnið er að smitrakningu.
Alls greindust 39 ný kórónuveirusmit innanlands í gær, þar af 33 hjá þeim sem höfðu farið í sýnatöku vegna einkenna. Þetta kemur fram á covid.is. Fjögur smit greindust á landamærunum og er beðið eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu í öllum tilvikunum.
Fjórir eru enn á sjúkrahúsi, þar af einn á gjörgæslu. 492 eru í einangrun, sem er fjölgun um 37 frá því í gær. Langflestir eru í einangrun á höfuðborgarsvæðinu, eða 425.