Fjórir árekstrar urðu á Akureyri í gærkvöldi eftir að þar byrjaði að snjóa, en götur í bænum eru nú hvítar. Frá þessu er greint á mbl.is. Að sögn lögreglunnar á Akureyri varð fyrsta óhappið um kvöldmatarleytið og það síðasta um miðnætti. Í öllum tilfellum var um minni háttar umferðaróhöpp að ræða sem líklega má rekja til hálku, en engin meiðsl urðu á fólki.
Hvetur lögregla bílstjóra og gangandi til að fara varlega í umferðinni nú í morgunsárið. Þá var einn bílstjóri stöðvaður fyrir ölvunarakstur skömmu eftir miðnætti, segir í frétt mbl.is.