Fjölskylda sameinast í Crossfit

Ólöf Magnúsdóttir, Selma Sigurðardóttir Malmquist, Ingibjörg Ragna Malmquist og Ólöf Maren Bjarnadót…
Ólöf Magnúsdóttir, Selma Sigurðardóttir Malmquist, Ingibjörg Ragna Malmquist og Ólöf Maren Bjarnadóttir.

Vikudagur fékk þær Ólöfu Magnúsdóttur, dætur hennar þær Selmu og Ingibjörgu og dóttir Selmu, Ólöf Maren í spjall um fjölskyldulífið, jólin og Crossfit. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á Crossfit og stunda það  allar af kappi. Þær reyna að nota allan þann tíma sem þær hafa yfir hátíðarnar til þess að æfa saman ásamt því að borða góðan mat.

„Þær töluðu um að þetta væri svo gaman. Ég var viss um að þetta væri ekkert fyrir mig, að ég væri of gömul í þetta. Svo bara ákvað ég að fara á grunnnámskeið. Það er alltaf einhver að segja manni hvað maður eigi að gera á æfingum, það er mikill plús fyrir mig“ segir Ólöf eldri aðspurð að því hvað það var sem heillaði hana við Crossfit og afhverju hún byrjaði að stunda það. Stuttu eftir að Ingibjörg byrjaði náði hún að sannfæra stóru systir sína að þetta væri svo ótrúlega skemmtilegt og klárlega eitthvað sem hún hefði gaman af. Dóttir Selmu, Ólöf Maren byrjaði aðeins 10 ára að stunda Crossfit en helsta ástæðan fyrir því afhverju hún byrjaði var að þrekið í sundinu var svo leiðinlegt. Auðvitað hlustar hún líka á mömmu sína sem sagði henni að prófa Crossfit. „Ég var að æfa sund sem krakki. Það voru einhverjar tvær til þrjár í sundinu sem byrjuðu á undan mér í Crossfit og sögðu að þetta væri alveg frábært. Það er líka meira svona íþróttaanda stemning í þessu heldur en til dæmis að vera í ræktinni. Ekki það að mér fannst ekki leiðinlegt í ræktinni fyrr en ég byrjaði í Crossfit. Ég myndi aldrei vilja fara núna til baka“ bætir Ingibjörg við.  

 

Jólin og mataræðið

Þær virtust allar vera sammála því að það sem hefur tekið miklum breytingum eftir að þær fóru allar að stunda Crossfit, var mataræðið. „Ég er alveg búin að fara allan hringinn. Borða Paleo, sleppa öllu hveiti, brauði, sælgæti og fleira. Þegar ég tók Paleo þá hreinsaði ég alveg út og það fengu allir bara það í matinn þannig já það er búið að taka út ýmsilegt en svona almennt á heimilinu þá er já hollara í matinn “ sagði Selma rétt áður en hún teygði sig í súkkulaðikúlu. „jájá það er alveg búið að lagast helling en það svo sem mætti alveg vera betra samt“ segir Ingibjörg brosandi. „maturinn sjálfur er fínn en svo er það ísinn og nammið sem fylgir með sem maður stundum hugsar um að minnka og minnkar í einhvern tíma sem fer svo líka upp á einhverjum tíma, það fylgir bara“ bætir hún við. Jólin hjá svona Crossfit fjölskyldu eru lítið öðruvísi en hjá öðrum. Smákökubaksturinn og gosdrykkjan virðist vera það helsta sem hefur minnkað hjá fjölskyldumeðlimum. „Í fyrra keypti ég aðeins nokkra lítra í staðinn fyrir heilu kippurnar af 2L flöskum, það var eiginlega mesti sjáanlegi munurinn. Það er ekki að maður hætti að drekka gos heldur notar maður það meira sem spari“ segir Ólöf eldri. Möndlugrauturinn eða Jólagrauturinn eins og Ingibjörg kallar hann, er mest einkennandi þegar kemur að hefðum um jólin. Grauturinn er borðaður í hádeginu á aðfangadag og eins og Selma orðaði það: „allir sem hafa komið einu sinni í graut mega alltaf koma aftur, allir velkomnir“. Það hafa mætt allt uppí 30 manns, bæði vinir og fjölskyldumeðlimir í hádegis grautinn. Margir í fjölskyldunni vinna vaktavinnu og er það því misjafnt hvort öll stórfjölskyldan nái að hittast og borða saman á aðfangadag. Það virðist allt fara eftir vinnustöðum, hver er að vinna, hvar og hvernig en þau reyna að borða öll saman á gamlárskvöld.

 

Æfingarnar yfir hátíðarnar

 

Það virðist ekki vera tekin nein pása yfir hátíðarnar þegar kemur að æfingum hjá þessari mögnuðu fjölskyldu. Þær nota allann þann tíma sem þær hafa yfir hátíðarnar til þess að skella sér á æfingu. Þær æfa frekar meira en minna þar sem allir hafa meiri tíma í sólarhringnum og því auðveldara að skipuleggja tímann í kringum æfingarnar.  „Í fyrra á Jóladag fengum við þá flugu í hausinn að vera með skemmtilega æfingu hérna. Við fórum öll fjölskyldan í jólapeysum og tókum upp allar æfingarnar á video og póstuðum á Facebook. Þannig Jóladagur fór eiginlega bara í það, í Crossfit samt“ segir Ingibjörg hlægjandi. Þær fara allar á aðfangadag á æfingu nema Ólöf eldri en hún stendur vaktina við eldavélina og hrærir í Jólagrautnum. Þær velta því samt fyrir sér hvort ekki sé hægt að setja jólagrautinn yfir á pabba þeirra þannig Ólöf eldri nái nú aðfangadags æfingu með þeim öllum. „Já ég er mikið að velta því fyrir mér núna hvort það sé ekki bara hægt“ segir Ólöf eldri og glottir. Fjölskyldan sameinast öll á æfingu á gamlárs. Það er mikil stemning og húllumhæ sem myndast meðal iðkenda yfir hátíðarnar. Í fyrra var ákveðið að hafa hattaþema á gamlársæfingunni, iðkenndum til mikillar ánægju. „Við höfum boðið líka uppá piparkökur og kakó. Svo eru líka margir sem fara suður í skóla og koma svo á æfingu um jólin, eru að koma í jólafrí, það er mjög gaman. Þetta eru líka oftast bara tvær æfingar á dag, þetta er meira svona eins og laugardagur og sunnudagur allir dagar þannig það eru oft margir á æfingu á hverri æfingu og mikið hangsað eftir það“ segir Ingibjörg. „spurning hvort við séum að æfa meira eða hvort við séum bara hérna meira“ bætir Selma við og glottir. Boðið er uppá fjölskylduæfingar af og til og sérstaklega um hátíðarnar en markmiðið með þeim er að fá ekki bara fullorðna fólkið á æfingu á meðan börnin sitja heima með nammiskálina, heldur er reynt að fá alla með. Þær æfingar eru þá byggðar upp þannig að allir geta tekið þátt, þetta eru einfaldar æfingar sem krakkarnir ráða vel við og mikið er lagt uppúr samvinnu. Enn er ekki komin nein ákveðin hátíðardagskrá en þær lofa allar mikilli skemmtun og gleði. Á æfingunum verður mikið lagt uppúr samvinnu þar sem margir eru í húsinu á sama tíma.

-­SBF

 

 

Nýjast