Í dag, föstudaginn 8. júní, verður haldið málþing í Háskólanum á Akureyri undir yfirskriftinni: Fjölmiðlar á Íslandi og í Evrópu. Málþingið verður haldið milli kl. 13.00 - 16.40 í stofu M103 og eru allir velkomnir. Að málþinginu standa Háskólinn á Akureyri, 5 ára útskriftarstúdentar úr fjölmiðlafræði við HA og Evrópustofa. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs HA og fimm ára fjölmiðlafræðingur frá HA setur málþingið og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Evrópustofu flytur ávarp.
Framsög flytja: Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við HA: Fjölmiðlar og umræðan um aðild að ESB. Markús Meckl, dósent við HA: The accession process and the media: Iceland and Latvia. Kjartan Ólafsson, lektor við HA: Íslensk fjölmiðlanotkun í evrópsku samhengi. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Menntasetrinu á Þórshöfn og fimm ára fjölmiðlafræðingur frá HA: Á vígvellinum eða í skúringum: kynjaðar myndir af stjórnmálamönnum í íslenskum dagblöðum. Birgir Guðmundsson, dósent við félagsvísindadeild HA: Hólfaskipt almannarými og horfið samtal: Fjölmiðlanotkun Íslendinga eftir aldri og búsetu.
Að lokinni framsögu verður pallborð og spurningar úr sal.