Fjölmargt í boði á 17. júní

Mynd/Ragnar Hólm
Mynd/Ragnar Hólm
Hátíðardagskrá verður á Akureyri í dag, þjóðhátiðardeginum 17. júní, sem hefst klukkan 13:00 í Lystigarðinum. Þar mun Lúðrasveit Akureyrar leika undir stjórn Alberto Carmona, séra Jón Ómar Gunnarsson prestur í Glerárkirkju flytur hugvekju, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri flytur ávarp og Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots. 

Einnig munu sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lesa ljóð sem tengjast konum og er það í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna. 
 
Skrúðganga leggur af stað úr Lystigarðinum klukkan 13.45 og verður gengið inn á Ráðhústorg þar sem fjölskyldudagskrá undir stjórn Skátafélagsins Klakks hefst klukkan 14 og stendur til kl. 17:00. Hægt verður að taka þátt í ratleik á miðbæjarsvæðinu sem skátafélagið Klakkur skipuleggur sem og í skátatívoli í Skátagilinu. 
 
Fjölskyldudagskráin hefst svo aftur um kvöldið klukkan 20:00 og stendur til 23.30.  Meðal þeirra sem fram koma eru 200.000 naglbítar, Pétur Örn, Katrín Mist og í upphafi kvölds verður skátakvöldvaka.  Hápunktinum er svo náð klukkan 23.00 þegar nýstúdentar Menntaskólans á Akureyri marseta glaðbeittir inn á Ráðhústorg.
 
Af annarri dagskrá á 17. júní má nefna Bílasýningu Bílaklúbbs Akureyrar sem stendur yfir kl. 10-18 í Boganum, boðssigling með Húna kl. 17 og er siglt frá Torfunefsbryggju og Leikhópurinn Lotta verður með sýningar kl. 11 og 17 í Lystigarðinum þar sem fjölskylduævintýrið Hrói höttur er sýnt.
 

Nýjast