Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð en alls taka á fjórða tug aðila þátt í sýningunni. Óhætt er að segja að MATUR-INN 2009 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Á sýningunni eru sýningarbásar fyrirtækja og matarmenningarfélaga, markaðstorg þar sem t.d. hægt er að kaupa ferska haustuppskeru, kjötiðn er sýnd, keppt í fiskisúpugerð, borgaragerð og þjóðþekktir einstaklingar reyna með sér í matreiðslu. Gestir sýningarinnar fá ýmislegt gott að smakka í mat og drykk, auk þess sem þeir geta gert góð kaup hjá sýnendum.