Fjölbreytt dagskrá um helgina á Vetraríþróttahátíð ÍSÍ

Um helgina fara fram hinir ýmsu viðburðir tengdir Vetraríþróttarhátíð ÍSÍ 2010 á Akureyri. Flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort heldur er sem þátttakendur og/eða áhorfendur. Á fjölskylduhelgi Skautafélags Akureyrar verður m.a. skautadiskó í Skautahöllinni í kvöld föstudag, frá 19:30 til 21:30 og er frítt inn.   

Einnig má nefna Snjóhlaup UFA, íscrossæfingu, Opna Bautamótið í tölti og Vetraríþróttahátíð að Hömrum. Snjóhlaup UFA fer fram á tjörninni austan Skautahallarinnar á morgun laugardag og er öllum opið. Þar verður lögð hlaupabraut umhverfis tjörnina. Leiðin liggur yfir snjóruðninga og aðrar torfærur sem tíðar eru á þessum árstíma. Brautin verður opin frá kl. 13:00-15:00 og á þeim tíma getur fólk komið eitt eða í hópum og hlaupið brautina. Ekki er um eiginlegt keppnishlaup að ræða heldur getur hver og einn þátttakandi ráðið því hvort og við hverja hann keppir. Fjölskyldur, vinahópar eða vinnustaðahópar geta mætt saman á ákveðnum tíma og reynt með sér eða hlaupið brautina saman sér til skemmtunar. Engin tímataka verður í hlaupinu en starfsmenn hlaupsins verða dómarar hjá þeim hópum sem kjósa að reyna með sér og keppa. Allir sem taka þátt fá viðurkenningu að hlaupi loknu.

Á Leirutjörn við Skautahöllina verður íscrossæfing, þar sem kappar á mótorcrosshjólum munu fara mikinn á milli kl. 14-16 á morgun laugardag. Opna Bautamótið í tölti verður haldið á morgun laugardag kl. 20.00 í Skautahöllinni á Akureyri. Allir eru velkomnir en aðgangseyrir er 1.500 krónur en frítt fyrir 12 ára og yngri. Riðnir eru 3 hringir á tölti (hægt, hraðamun og fegurðar). Tvöfallt vægi á hægatöltinu. Að móti loknu verður opið hús í TopReiterhöllinni, reiðhöll Léttisfélaga. Um daginn verður einnig sölusýning í reiðhöll Léttis. Nánari upplýsingar um mótið veitir Guðmundur í síma 897-3818.

Vetraríþróttahátíð að Hömrum

Um helgina verður einnig boðið upp á dagkskrá að Hömrum í tengslum við Vetraríþróttahátíðina. Á morgun laugardag verður þar snjómyndakeppni en um er að ræða liðakeppni í gerð snjómynda á svæðinu umhverfis Hamra. Keppnin er sett upp sem fjölskyldukeppni þannig að hvert lið er skipað einni fjölskyldu. Aldursamsetning og fjöldi í liði eru ekki takmörk sett. Þegar sést hvernig liðin verða samsett verður ákveðið hvort um riðla verður að ræða. Keppnin hefst að Hömrum Kl. 10. á laugardag og lýkur kl 16. Sérstök dómnefnd velur flottustu myndina. Keppendur verða sjálfir að koma með verkfæri sem nota þarf við gerð snjómyndarinnar. Þeir sem hyggjast taka þátt er bent á að skrá sig til keppni með tölvupósti á netfangið tryggvi@hamrar.is fyrir kl. 16.00 í dag, föstudag.

Á sunnudaginn fer fram sleða- og þotukeppni fyrir börn að Hömrum. Keppnin er aðallega ætluð börnum á aldrinum 8-12 ára og keppt verður í riðlum eftir aldri og gerð sleða eða þotu. Keppnin hefst kl 13.30. Skráning á tryggvi@hamrar.is  fyrir kl 16.00 á morgun laugardag.

Á sunnudag verður jafnframt boðið upp á gönguferð með farastjóra frá Hömrum og í skátakálana Gamla og Fálkafell og endað aftur að Hömrum. Lagt verður af stað frá Hömrum kl 10 um morguninn og reiknað með að koma til bak á milli 14 og 15. Skráning á tryggvi@hamrar.is fyrir kl 16.00 í dag föstudag. Nánari upplýsingar í síma 843-0002.

 

Nýjast