Dagskrá hátíðarinnar Einnar með öllu sem fram fer á Akureyri um verslunarmannahelgina hefur aldrei verið glæsilegri að sögn aðstandenda hátíðarinnar og allir ættu að finna eitthvað við hæfi. Fimm stórir útitónleikar verða um helgina ásamt annarra viðburða. Fyrir þá sem vilja dvelja sem lengst í miðbænum þá má skella sér í sirkus, tívolí, vatnabolta, litbolta, skoða lifandi listasýningu og taka rölt í gegnum markaðsstemminguna í miðbænum.
Dagskrárliðir sem náð hafa miklum vinsældum og hafa fest sig í sessi á Hátíðinni má nefna: Fimmtudagsfílingur í göngugötunni með N4, kirkjutröppuhlaupið, góðgerðaruppboð á Muffins í Lystigarðinum (Mömmur og Muffins), hið eina sanna 80´s Dynheimaball, Leikhópurinn Lotta, Ævintýraland að Hömrum, siglingar á pollinum þar á meðal sigling með Húna II, Tívolí, Paint Ball, söngkeppni unga fólksins og ýmislegt fleira. Og ekki má gleyma sparitónleikunum og flugeldasýningunni á sunnudagskvöldinu þar sem undanfarin ár hafa verið á milli 15 og 20 þúsund gestir.
"Í ár eins og árið áður langar okkur að bærinn verði rauður í samræmi við hjartað sem hefur sett svip sinn á bæinn. Því eru rauðar seríur, rautt skraut eða eitthvað rautt og fallegt það sem á við á Akureyri um Verslunarmannahelgina en veitt verða verðlaun fyrir best skreyttu ötuna. Við hvetjum fólk til þess að deila myndum með okkur á samfélagsmiðlum og merkja þær #rauttAK, reglurnar eru einfaldar, sú mynd sem er merkt #rauttAK og með götuheiti með flest like vinnur 100.000 kr. grillkjötspakka frá Goða," segir í tilkynningu.
Eins og fyrri ár er gert ráð fyrir þúsundum gesta sem leggja leið sína til Akureyrar. UMFÍ heldur unglingalandsmót sitt á sama tíma á Akureyri og starfar hátíðin í samvinnu við UMFÍ. Allar nánari upplýsingar og dagskrána í heild má finna á einmedollu.is