Fjölskylduhátíðin Ein með öllu fer fram á Akureyri um verslunarmannahelgina. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytta dagskrá og að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefst fimmtudaginn 31. júlí næstkomandi með fimmtudagsfílingi N4 í formi útitónleika í Skátagililnu og nær hámarki sunnudagskvöldið 3. ágúst með Sparitónleikunum á Samkomuhúsflötinni og flugeldasýningu við Pollinn.
Fjöldi dagskrárliða hafa fest sig í sessi á síðustu árum og má þar nefna Óskalagatónleika Eyþórs Inga og Óskars Péturssonar í Akureyrarkirkju, Kirkjutröppuhlaupið, Mömmur og Möffins í Lystigarðinum, Dynheimaballið, Leikhópinn Lottu og ýmislegt fleira. Helstu söngbarkar þjóðarinnar munu ekki láta sig vanta til Akureyrar og fram koma m.a. Dúndurfréttir, Retro Stefsson, Magni Ásgeirs, Páll Óskar, Stjórnin (Sigga Beinteins & Grétar Örvars), Steindi JR, Kaleo, Úlfur Úlfur, 200.000 Naglbítar, Rúnar Eff og margir fleiri.
Auk ofangreindra atriða verður boðið upp á markað í miðbænum, ævintýralandið að Hömrum, fjölskyldudagskrá á Ráðhústorgi, tívolí, sirkus, söngkeppni unga fólksins, litbolta, vatnabolta og margt fleira.
Yfirbragðið er vinalegt og við teljum frekar bros en fólk. Við nýtum sögu og hefðir í bænum í dagskrágerð okkar og viljum að heimamenn og gestir séu virkir þátttakendur í hátíðarhöldunum. Bærinn verður rauður í samræmi við hjartað sem víða prýðir bæinn m.a. í umferðarljósunum. Rauðar seríur, rautt skraut eða eitthvað rautt og fallegt á því afar vel við á Akureyri um Verslunarmannahelgina. Veitt verða verðlaun fyrir BEST SKREYTTU GÖTUNA OG BEST SKREYTTA HÚSIÐ. Við hvetjum fólk til þess að deila myndum með okkur á samfélagsmiðlum og merkja þær #rauttAK. Eins og fyrri ár er gert ráð fyrir þúsundum gesta sem leggja leið sína til Akureyrar til að gleðjast og skemmta sér með Akureyringum. Það stefnir því í afar skemmtilega fjölskylduhátíð þar sem bæjarbúar og gestir gleðjast á Einni með öllu, segir í tilkynningu.
Það eru Vinir Akureyrar í samvinnu við Akureyrarstofu/Akureyrarbæ sem standa fyrir Einni með öllu. Helstu bakhjarlar eru Goði, Vífilfell og sjónvarpsstöðin N4.