Fjögurra vika sumarlokun leikskóla sparar um 10 milljónir

Skólanefnd Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vetur tillögu þess efnis að loka leikskólum bæjarins í fjórar vikur í sumar og hefur sú ákvörðun vakið nokkra óánægju meðal foreldra leikskólabarna.  

Elín Margrét Hallgrímsdóttir bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, segir skiljanlegt að foreldrar séu óhressir með þessa ákvörðun, því vissulega sé verið að skerða þjónustuna. Hún segir að reiknað sé með að sparnaður vegna þessa verði um 10 milljónir króna. Jafnframt að leitað verði allra leiða til að ekki þurfi að grípa til þess úrræðis að loka aftur í fjórar vikur.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að leikskólarnir Lundarsel, Pálmholt, Holtakot, Kiðagil, Krógaból og Tröllaborgir loki 5. júlí - 30. júlí og leikskólarnir Iðavöllur, Flúðir, Síðusel, Sunnuból, Naustatjörn og Hólmasól loki 12. júlí - 10. ágúst. Síðastliðið sumar var leikskólum bæjarins lokað í tvær vikur.

Nýjast