Þrír af hverjum fjórum fjarnemum við Háskólann á Akureyri (HA) búa áfram í heimabyggð fimm árum eftir brautskráningu. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var af Þóroddi Bjarnasyni, Inga Rúnari Eðvarðssyni, Ingólfi Arnarsyni, Skúla Skúlasyni og Kolbrúnu Ósk Baldursdóttur og sagt er frá á heimasíðu HA. Greinin birtist í Tímariti um uppeldi og menntun og ber heitið „Svæðisbundin áhrif íslenskra háskóla“.
„Þessar niðurstöður eru í samræmi við tilfinningu okkar hér við HA en þetta er í fyrsta sinn sem sýnt hefur verið fram á sterk tengsl fjarnáms og búsetu í heimabyggð með opinberum gögnum um búsetu fyrir nám,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA og einn höfunda greinarinnar.
Rannsóknin sýnir ennfremur fram á að mikill munur er á menntunarstigi þjóðarinnar eftir landshlutum. Árið 2011 höfðu þannig 38% íbúa höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 25–64 ára lokið háskólaprófi en 21–23% í flestum öðrum landshlutum. Þessi munur skýrist að hluta af takmörkuðu framboði starfa sem krefjast háskólamenntunar en að hluta af skorti á háskólafólki til starfa.
„Það er mikilvægt fyrir Háskólann á Akureyri að fá þessar tölur á hreint enda höfum við lengi talið að við séum að mennta fólk í heimabyggð. Nú hefur verið sýnt fram á sterk tengsl milli heimabyggða og nemenda sem stunda sitt nám í fjarnámi. Við munum því efla námsformið sem hefur þróast úr því að vera fjarnám yfir í það að vera sveigjanlegt nám. Það þýðir að engu skiptir hvort þú sért á Akureyri eða annars staðar, allir njóta sömu kennslu,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Hér er hægt að lesa útdrátt úr greininni og greinina í heild sinni.