Á síðasta fundi sveitarstjórnar Hörgarársveitar va lögð fram stefna á hendur Hörgársveit og Dalvíkurbyggð þar sem fram kemur að fjármálaráðherra unir ekki úrskurði Óbyggðanefndar um að Þorvaldsdalsafrétt skuli ekki teljast þjóðlenda og hefur höfðað mál til að fá úrskurðinum hnekkt. Sveitarstjórn samþykkti að Friðbjörn Garðarsson, hrl., verði ráðinn til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins í málinu.
Einnig var á fundi sveitarstjórnar lagt fram minnisblað um uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum og greint frá stofnun undirbúnngsfélags nokkurra sveitarfélaga sem ætlað er að undirbúa kaup á hluta af jörðinni. Heiti félagsins er GáF ehf. Sveitarstjórn samþykkti að Hörgársveit eigi aðild að GáF ehf. með hlutafjárframlagi að fjárhæð kr. 75.000.
Þá voru á fundinum lögð fram drög að minnisblaði (Memorandum of Understanding (Mou)) um samstarf um atvinnuuppbyggingu á Dysnes-svæði af hálfu Hörgársveitar, Hafnasamlags Norðurlands og T-Shipping. Sveitarstjórn samþykkti að Hörgársveit eigi aðild að fyrirliggjandi minnisblaði um sameiginlegan skilning á atvinnuuppbyggingu á Dysnes-svæði, með breytingum í samræmi við umræður á fundinum.