Fjármagn tryggt í aðflugsbúnað á Akureyrarflugvelli

Frá komu farþega frá Bretlandi til Akureyrar.
Frá komu farþega frá Bretlandi til Akureyrar.

Isavia hefur fengið bréf frá samgönguráðuneytinu þess efnis að uppsetning á aðflugsbúnaði á Akureyrarflugvelli verði að fullu fjármagnaður. Þetta staðfestir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við Vikudag.

Isavia hefur beðið eftir fullvissu frá yfirvöldum um að ríkið muni greiði uppsetningu á nýjum aðflugsbúnaði, en að öðrum kosti yrði ekki farið í framkvæmdina. Guðjón segir að hönnunarvinnan sem hafi verið í gangi muni halda áfram og sömuleiðis haldi undirbúningur áfram á útboði á verkinu. Búist er við því að aðflugsbúnaðurinn verði tekinn í notkun á næsta ári. 

Uppsetning á nýjum aðflugsbúnaði á Akureyrarflugvelli hefur reynst mun dýrari en áætlað var. Til kaupanna fengust 100 milljónir úr ríkissjóði en veigameiri aðgerðir hefur hleypt upp kostnaðinum og áætlun upp á 100 milljónir króna er nú orðin 180 milljónir. 

Þegar reglubundið þotuflug frá Bretlandi til Akureyrar hófst í sl. vetur komu í ljós vandræði við að lenda á Akureyrarflugvelli í slæmu skyggni. Uppsetning á nýjum aðflugsbúnaði þykir lykilatriði í að efla ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Nýjast