Fimm marka tap hjá KA/Þór

KA/Þór og Fram mættust í kvöld í KA-heimilinu í 1. umferð N1 deildar kvenna í handbolta þar sem Fram fór með fimm marka sigur af hólmi, 29:24 eftir að hafa leitt með sjö mörkum í hálfleik. Þrátt fyrir ósigurinn í kvöld geta KA/Þórs stúlkur verið sáttar við sína frammistöðu en þær sýndu að þær eiga fullt erindi í sterkustu lið deildarinnar.

Fram var á dögunum spáð sigri í deildinni en KA/Þór því næstneðsta eða 8. sæti. Norðanstúlkur byrjuðu leikinn í kvöld af krafti og komust í 3:1 eftir fjögurra mínútna leik. Fram skoraði þá þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 3:4 sér í vil. Leikurinn var í járnum framan af fyrri hálfleik  og þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 10:12 Fram í vil. Þá kom hins vegar góður kafli hjá gestunum sem skoruðu sex mörk gegn einu heimamanna.

Staðan í hálfleik, 11:18, Fram í vil.

KA/Þór byrjaði seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri og skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn niður í fjögur mörk og staðan 14:18. Gestirnir tóku hinsvegar fljótlega við sér og náðu mest átta marka forystu um miðbik seinni hálfleiks. Þegar líða fór á seinni hálfleikinn kom góður leikkafli hjá heimastúlkum og náðu þær að minnka muninn niður í fjögur mörk, 21:25, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Nær komust þó norðanstúlkur ekki og Fram sigraði með fimm mörkum, 29:24.

Arna Valgerður Erlingsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs í kvöld með 9 mörk þar af 4 úr vítum. Inga Dís Sigurðardóttir kom næst með 8 mörk, Unnur Ómarsdóttir skoraði 3 mörk og þær Emma Havin Sardarsdóttir, Martha Hermannsdóttir, Kara Rún Árnadóttir og Ásdís Sigurðardóttir eitt mark hver. Þá varði Selma Sigurðardóttir 12 skot í leiknum fyrir KA/Þór.

Hjá Fram var það Karen Knútsdóttir sem var markahæst með 9 mörk. Þær Stella Sigurðardóttir og Eva Hrund Harðardóttir skorðu fimm 5 mörk hvor og aðrar minna.

Nýjast