Lögreglan á Akureyri hefur nú undanfarið lagt talsverða áherslu á að fylgjast með ökuhraða þeirra sem aka um götur bæjarins. Notaðar hafa verið merktar sem ómerktar lögreglubifreiðar til verksins og hefur það sýnt sig að ökuhraði er víða allt of mikill og hefur gáleysislegur akstur sem og óþarfa hávaði frá þessum bifreiðum farið í taugarnar á mörgum samferðamönnum þessara manna.
Í gær hafði lögreglan afskipti af tæplega 40 ökumönnum þar sem þeir óku um Hörgárbraut og Drottningarbraut en þar er hámarkshraði 50 km/klst. Flestir þeirra sem höfð voru afskipti af óku á bilinu frá 70 - 80 km hraða en sá sem hraðast ók var á 86 km hraða. Geta má þess að sekt fyrir að aka á 86 km hraða er 30.000 krónur og tveir punktar að auki.