KA leikur sinn fyrsta heimaleik í sumar í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið fær Víking R. í heimsókn á Akureyrarvöll kl. 18:30. Þetta er langþráður heimaleikur og það er kominn mikill fiðringur í mannskapinn að leika á okkar velli fyrir framan okkar stuðningsmenn, segir Gunnar Valur Gunnarsson leikmaður KA í samtali við Vikudag. KA hefur spilað fyrstu tvo leikina í deildinni í Breiðholtinu í Reykjavík, þar sem liðið tapaði gegn ÍR í fyrsta leik en vann Leikni R. í síðasta leik, 3-1.
Gunnar segir mikilvægt að nýta heimavöllinn í sumar. Þetta er bara gamla góða tuggan; ef þú vinnur ekki heimaleikina að þá ertu ekki að fara gera neina hluti í deildinni. Við ætlum að gera Akureyrarvöll að vígi í sumar. KA hefur þrjú stig í sjötta sæti eftir fyrstu tvær umferðirnar en Víkingur R. hefur fjögur stig í fimmta sæti. Um andstæðinginn í kvöld segir Gunnar Valur:
Þetta er sterkt lið sem hefur gríðarlega mikla reynslubolta í sínum röðum. Það verður skemmtilegt að mæta þeim og við ætlum okkur að taka öll þrjú stigin sem verða í boði. Við spiluðum við Víking R. í vetur og þá endaði leikurinn með markalausu jafntefli. Við skulum vona að það verði boðið uppi á meiri skemmtun á Akureyrarvelli í kvöld, segir Gunnar léttur.