Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit var kölluð út fyrir stuttu vegna göngumanns sem er í vandræðum vestur af Dettifossi. Á svæðinu er mikill snjór og svæðið því frekar erfitt yfirferðar og virðist göngumaðurinn óttast um að komast ekki á áfangastað auk þess sem hann segist vera orðinn kaldur og slæptur.
Björgunarsveitamenn eru að tygja sig til ferðar en þeir ætla að fara á jeppum niður að Dettifossi þaðan sem þeir ætla á vélsleðum að Grjóthálsi en þar telur maðurinn sig vera. Hæglætis veður er en snjómugga af og til og því blint en björgunarsveitarmenn vonast til að vera komnir til baka með manninn áður en dimmir. JS