"Starfið leggst afskaplega vel í mig. Það er mikil ábyrgð sem því fylgir að vinna hjá þjóðarhljómsveit Íslendinga sem hefur verið á mikilli siglingu undanfarið bæði innanlands sem utan. Ég fer full tilhlökkunar inn í starfið og hlakka til að vera partur af flaggskipi íslenskrar menningar,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir sem hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Lára Sóley er fiðluleikari og hefur starfað sem tónlistarmaður og sjálfstætt starfandi verkefnastjóri undanfarin ár. Á árunum 2010-2014 var hún verkefnastjóri við Menningarhúsið Hof og gegndi starfi framkvæmdastjóra Hofs í afleysingum. Hún hefur verið konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og framkvæmdastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju. Lára Sóley er með BMus próf frá Royal Welsh College of Music and Drama og er að ljúka meistaranámi í listastjórnun við sama háskóla.
Draumastarfið
En er Lára komin í draumastarfið?
„Já, ekki spurning. Starfið sameinar reynslu og þekkingu sem ég hef öðlast sem tónlistarmaður, bæði sem hljóðfæraleikari og konsertmeistari, sem tónlistarkennari og verkefnastjóri. Námið sem ég hef stundað í listastjórnun í Royal Welsh College of Music and Drama frá því síðasta haust hefur svo byggt enn frekar ofan á þessa reynslu, en námið miðar að því að undirbúa nemendur undir stjórnunarstörf innan menningarstofnanna,“ segir Lára Sóley. „Nýju fólki fylgja nýjar áherslur en ég er er full aðdáunar yfir því frábæra starfi sem SÍ hefur unnið á síðustu árum. Ég vil tryggja að velgengnin haldi áfram og samtal við þjóðina eflist.“
Lærdómsríkur tími í Wales
Ráðið er í stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands til fjögurra ára í senn og tekur Lára við starfinu þann 1. ágúst næstkomandi. Lára hefur verið búsett í Wales undanfarið ár ásamt fjölskyldu sinni þar sem hún hefur stundað nám en fjölskyldan mun nú flytja til Reykjavíkur í sumar. Lára er gift Hjalta Jónssyni sálfræðingi og tónlistarmanni og saman eiga þau þrjú börn. Hún segir fjölskylduna hafa notið verunnar í Wales.
„Þetta hefur verið dásamlegur og lærdómsríkur tími fyrir okkur öll. Öllum hefur gengið vel að aðlagast. Krakkarnir hafa bæði þurft að læra ensku og veilsku og hafa staðið sig alveg frábærlega. Við höfum eignast mikið af vinum og kynnst nýju fólki en á sama tíma hefur dvölin þjappað okkur enn meira saman. En við erum öll mjög spennt að flytja aftur til Íslands. Við hefðum alveg getað hugsað okkur að vera lengur en tækifæri sem þessi bjóðast ekki á oft. Það verður yndislegt að vera nær fjölskyldunni og vinunum á Íslandi,“ segir Lára Sóley.