Félagsmönnum KEA fjölgað umtalsvert og eru nú 17.500

Hagnaður KEA á síðasta ári nam 101,3 milljónum króna, Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins 4,3 milljörðum króna í lok ársins 2010, bókfært eigið fé var 4,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall félagsins 97,9%.  Í lok síðasta árs voru félagsmenn í KEA 17. 355 talsins en voru 16.525 í upphafi árs. Félagsmönnum fjölgaði því um 830 á árinu, eða um 5% og í dag eru þeir orðnir 17.500.  

KEA á nú eignarhluti í um þrjátíu fyrirtækjum sem flest eru starfandi á félagssvæði þess.  Hjá þessum fyrirtækjum starfa hundruðir einstaklinga. Þetta er á meðal þess sem fram kom á fjölmennum aðalfundi félagsins á dögunum. Fram kom í ávarpi Hannesar Karlssonar stjórnarformanns KEA og Halldórs Jóhannssonar framkvæmdastjóra, að afkoma síðasta árs sé þolanleg miðað við aðstæður. "Stöðugt vaxtalækkunarferli var framan af ári sem svo endaði með stórfelldri leiðréttingu í september þar sem skuldabréfamarkaður lækkaði um áður óþekkt hlutföll á nokkrum dögum. Þetta hafði einhver áhrif á heildarniðurstöðu ársins en ekki ráðandi. Fyrirtæki sem KEA á eignarhluti í vegnaði verr á síðastliðnu ári heilt yfir en staða einstakra verkefna er mjög misjöfn. Sú staðreynd ræður mestu um afkomu ársins þar sem gengisbreyting fjáreigna var neikvæð en jákvæð á árinu áður. Efnahagur félagsins er áfram traustur og fjárfestingargeta til staðar. Félagið er nánast skuldlaust."

Einnig kom fram í ávarpinu að þrátt fyrir þessar erfiðu ytri aðstæður, skoðaði félagið nokkur stór verkefni á sl. ári en ekki varð af fjárfestingum. Aðeins varð um minniháttar fjárfestingar að ræða í Sparisjóði Höfðhverfinga sem og þátttöku í hlutafjáraukningu norska fasteingafélagsins CCP. "Þrátt fyrir hagnað á síðastliðnu ári eru horfur á þessu ári hvað tekjuöflun félagsins varðar ekki eins góðar. Vaxtastig hefur lækkað töluvert og óvíst hvort það lækkar frekar. Innlánskjör banka og sparisjóða hafa einnig lækkað mikið. Vegna þessara aðstæðna og í ljósi samsetningar eigna félagsins þar sem stórt hlutfall er laust fé er ljóst að erfitt mun reynast að halda félaginu í hagnaði."

Fram kom í máli Hannesar stjórnarformanns að samkvæmt stefnu KEA sé horft til þess að fjárfesta í fyrirtækjum með það að markmiði að eiga þau að fullu eða að minnsta kosti meirihluta í þeim, þannig að þau falli inn í samstæðuuppgjör félagsins. "Áhersla er lögð á hefðbundinn fyrirtækjarekstur á neytendasviði og er þá horft sérstaklega til þátttöku félagsmanna og héraðslegar tengingar. Jafnframt rúmast innan stefnunnar að félagið stofni til eigin atvinnustarfsemi frá grunni og hafa slíkir kostir verið teknir til skoðunar.  Eins og oft hefur verið rætt, eykur þessi stefna áhættu í rekstri félagsins þar sem hún leiðir af sér að eignir verða bundnar við tiltölulega fá fyrirtæki eða atvinnugreinar. Það er mat stjórnar félagsins að þessi nýja fjárfestingarstefna sé ekki fullreynd, hinar sérstöku ytri aðstæður að undanförnu hafa gert það að verkum að of fáir raunhæfir valkostir hafa skotið upp kollinum."

Hannes sagði að hjá félaginu hafi umtalsverð vinna starfsmanna farið í skoðanir á fjárfestingakostum sem ýmist voru boðnir til sölu með auglýsingum eða kynntir fjárfestum með öðrum hætti. Vinna við fjárfestingarverkefni sé yfirleitt ekki uppi á borðum og lítt sýnileg og um innihaldið gildi strangur trúnaður. "Þessa dagana eru stór verkefni til skoðunar hjá félaginu en eins og jafnan, þá vitum við ekkert um endanlega niðurstöðu þeirra, en leyfum okkur að vona það besta."

Nýjast