Stjórn Einingar-Iðju samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að leggja það til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður í apríl á næsta ári, að lækka félagsgjaldið niður í 1,0% en það er 1,3% nú. Samþykki aðalfundurinn lækkunina mun það hafa í för með sér að hætt verður að efla Vinnudeilusjóð Einingar-Iðju að því marki sem gert hefur verið á undanförnum árum. Miklar umræður hafa orðið um félagsgjöld stéttarfélaga frá því að VR lækkaði félagsgjald sitt niður í 0,7% fyrir skemmstu. Félagsgjald Eflingar stéttarfélags mun einnig lækka um næstu áramót. Það er mat stjórnar Einingar-Iðju að ekki sé hægt að reka félagið á lægra félagsgjaldi en 1,0% án þess að skerða þjónustu þess að miklum mun. Ef gjaldið yrði lægra þyrfti m.a. að segja upp starfsfólki á skrifstofu Einingar-Iðju á Akureyri og loka ef til vill skrifstofu félagsins á Dalvík, segir á vef félagsins.