„Afmælisbarnið eldist vel og á sér bjarta framtíð,“ segir Eiður Stefánsson formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks. Félagið fagnaði 95 ára afmæli sínu sunnudaginn, 2. nóvember, rn félagið var stofnað þann dag árið 1930. Af því tilefni var félagsfólki, núverandi og fyrrverandi boðið í afmæliskaffi á skrifstofu þess sem margir þáðu.
Akureyri hefur gegnt hlutverki verslunar og viðskipta á Norðurlandi um tíðina og segir Eiður sögu FVSA á liðinni öld samofna framförum á sviði verslunar- og skrifstofustarfa.

Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður FVSA frá 2005 - 2015, Margret Rögnvaldsdóttir og Jóna Steinbergsdóttir formaður FVSA frá1981 - 1999
„Upphaflegur tilgangur félagsins var að berjast fyrir betri kjörum fyrir hönd síns félagsfólks, en fljótlega var einnig horft til þess að fara fram á orlof og skaplegri vinnutíma. Félagið fór síðar að bjóða upp á skemmtiferðir, leigu á tjöldum og síðar orlofshúsum með það að markmiði að félagsfólk gæti gert sér glaðan dag í orlofinu án mikils tilkostnaðar,“ segir Eiður. Fyrsta vísi að starfsmenntasjóði má finna í fundargerðarbók strax árið 1934 og hefur alla tíð síðan verið lögð áhersla á að veita félagsfólki tækifæri til náms og endurmenntunar.

Tveir fyrrum formenn FVSA, Kolbeinn Sigurbjörnsson t.v. og Guðmundur Björnsson í jólakaffi hjá félaginu sínu á skrifstofunni í Brekkugötu 4
Um 2.300 félagsmenn
Við stofnun FVSA voru stofnmeðlimir um 30 en fjöldi félagsfólks hefur verið nokkuð stöðugur í kringum 2.300 manns undanfarin ár og er aldursbilið breitt. Eiður segir að allt að 3000 félagar séu innanborðs þegar mest er yfir sumarið og mikið af skólafólki starfandi í verslunum. „Okkar félagsmenn eru fjölbreyttur hópur og hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna hefur aukist undanfarin ár, en þar er einkum um að ræða fólk sem starfar á skrifstofum.“
Þjónustusvæðið er frá Siglufirði í vestri og til Grenivíkur í austri og spannar því allan Eyjafjörð. Auk þess að vinna að kjaramálum fyrir hönd síns félagsfólks stendur félagið fyrir fræðslu, býður félagsfólki styrki til heilsueflingar, náms og endurmenntunar, er með niðurgreidda orlofskosti. Sem dæmi á félagið 7 íbúðir í Reykjavík sem eru mikið nýttar allt árið, enda margir sem sækja þurfa þjónustu af ýmsu tagi suður yfir heiðar.
Eiður segir að félagið standa afar vel, það sé fjárhagslega öflugt og hafi góða burði til að bjóða félagsfólki sínu upp á góða þjónustu.

Erla Halls afgreiðslukona í verslun KEA í Grænumýri 9 og síðar starfsmaður FVSA
Nauðsynlegt að jafna örorkubyrgði milli lífeyrissjóða
Hann nefnir að alla daga standi félagið vörð um hag síns félagsfólks. Sem dæmi um mál sem verið er að vinna að í samvinnu við Landsamband íslenska verslunarmanna og ASÍ sem félagið á aðild að megi nefna baráttu fyrir því að stjórnvöld taki þátt í að jafna örorkubyrgði sem á lífeyrissjóðum hvíla. Tíðni örorku er mismikil eftir starfsgreinum og segir Eiður um að ræða mikið réttlætismál að ræða, en áform eru uppi um að afnema framlag ríkisstjórnar til að jafna þessar byrðar milli lífeyrissjóð á næsta ári.

Friðbjörg Jóhannsdóttir við störf í Samkaup Úrval Dalvík 2015
Teikn á lofti um að hagkerfið sé að kólna
Eiður nefnir einnig að mikilvægt sé að standa vörð um atvinnuleysistryggingasjóð, en fram hafa komið þau áform stjórnvalda að skera niður á þeim vettvangi, þ.e. að bætur vegna atvinnumissis verði greiddar út í 12 mánuði í stað 30 eins og nú er. „Það eru teikn á lofti um að hagkerfið sé að kólna og við því að búast að í náinni framtíð muni atvinnuleysi aukast. Það hefur gengið vel hjá okkur undanfarin ár og næg atvinna í boði. Þegar þannig árar virðist liggja vel við að koma höggi á atvinnuleysistryggingasjóð, sem er miður,“ segir Eiður. Hann bætir við að lokun PCC á Bakka hafi áhrif, tímabundin minni umsvif Norðuráls og óvissa í heimsmálum hafi áhrif á fyrirtæki sem ekki verði eins viljug að ráða inn fólk þegar kreppa fer að. „Það er krafa okkar stéttarfélaganna að staðinn verði vörður um rétt fólks til atvinnuleysisbóta og fyrir því munum við berjast.“
Eiður nefnir að samkvæmt könnun sem gerð var meðal félagsfólks í FVSA nýverið kom í ljós að það ríkir mikil ánægja og traust til félagsins. „Framtíðin er björt fyrir þetta tæplega aldargamla félag og félagsfólk þess.
