Feðgar útskrifast með stúdentspróf

Feðgarnir Guðmundur Gabríel Ingþórsson og Ingþór Örn Valdimarsson    Mynd  VMA.is
Feðgarnir Guðmundur Gabríel Ingþórsson og Ingþór Örn Valdimarsson Mynd VMA.is

Upp er runninn síðasti kennsludagur þessarar vorannar 2025. Í mörg horn hefur verið að líta síðustu daga fyrir bæði kennara og nemendur enda þarf að ljúka við hin ýmsu verkefni og einnig eru próf í mörgum námsáföngum. Fram undan eru námsmatsdagar og punkturinn verður síðan settur yfir i-ið með brautskráningu í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 24. maí.

Í hópi brautskráningarnemanna verða feðgarnir Guðmundur Gabríel Ingþórsson (f. 2006) og Ingþór Örn Valdimarsson (f. 1983). Guðmundur Gabríel lýkur stúdentsprófi af fjölgreinabraut en Ingþór, sem hefur tekið alla sína áfanga í fjarnámi, útskrifast sem félagsliði og einnig með stúdentspróf að loknu starfsnámi.

Guðmundur Gabríel hóf nám í VMA haustið 2022. Hann var fyrstu önnina á listnáms- og hönnunarbraut, færði sig yfir á náttúruvísindabraut, síðan á félags og hugvísindabraut og útskrifast af fjölgreinabraut.

Ingþór Örn er Hafnfirðingur en hefur búið á Akureyri í tuttugu ár. Að loknum grunnskóla var hann um tíma í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og einnig í Iðnskólanum í Hafnarfirði en lauk ekki námi. Í kjölfarið á því að Ingþór fór að starfa í félagsgeiranum hjá Akureyrarbæ fyrir sjö árum fór hann í félagsliðanám í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Þar er námið kennt upp á annað hæfniþrep en VMA kennir námið á þriðja hæfniþrepi. Þess vegna innritaðist Ingþór í VMA til þess að ljúka félagsliðanáminu af þriðja hæfniþrepi. Jafnframt hefur hann tekið viðbótarnám til stúdentsprófs og útskrifast því 24. maí nk. með tvö skírteini, annars vegar til staðfestingar á félagsliðanáminu og hins vegar stúdentsprófinu.

Það er sannarlega ekki á hverjum degi sem feðgar/feðgin/mæðgur/mæðgin útskrifast á sama degi – í báðum tilfellum með stúdentspróf. Þeir feðgar segjast hafa áttað sig á því sl. haust að þetta gæti mögulega gerst. Ingþór segir að hann hafi þá ákveðið að leggja allt í sölurnar til þess að ná þessu heim og saman, ekki hafi komið til greina að útskrifast einni önn síðar en sonurinn! Hins vegar segir hann að vegna þess að Guðmundur sé framar í stafrófinu en Ingþór fari það líklega svo að sonurinn útskrifist formlega á undan föður sínum!

Ingþór segir það sannarlega frábæra tilfinningu að sjá fyrir endann á náminu og undir það tekur Guðmundur. Báðir segja þeir ákveðna tómleikatilfinningu bærast með sér þegar lokatakmarkið sé innan seilingar. Ingþór bætir við að vissulega hafi oft verið heilmikið púsluspil að koma fullu námi heim og saman við fulla vaktavinnu en með góðu skipulagi hafi þetta tekist. Hann segir að til að byrja með hafi tekið dágóðan tíma, eftir langt hlé frá námi, að læra að læra en síðan hafi honum tekist að koma góðu skipulagi á hlutina og láta þetta allt ganga upp. Fyrst og fremst hafi þetta verið virkilega skemmtilegur leiðangur.

Ingþór ætlar ekki að láta staðar numið í námi eftir félagsliðann og stúdentinn, hann sé ákveðinn í að halda áfram strax næsta haust og fara í þroskaþjálfanám í fjarnámi frá Háskóla Íslands. Hann segir ekki eftir neinu að bíða enda sé hann kominn í góða skólaæfingu, haldi hann ekki strax áfram námi sé hætta á því að hann láti aldrei verða af því. Nú sé lag!

Guðmundur Gabríel segist ekki vera með fullmótaðar skoðanir á því hvað hann ætli að verða þegar hann verði stór. Þó hallist hann að því að fara í verknám í framhaldinu og í því sambandi horfi hann mest til náms á rafiðnbraut VMA. Þar mun stúdentsprófið að sjálfsögðu nýtast vel því nú þegar hefur Guðmundur Gabríel lokið öllum almennum bóklegum grunnáföngum.

Heimasíða Verkmenntaskólans  segir frá

Nýjast