Fannfergi ekki verið meira á Húsavík í vetur

Snjóþyngsli hafa ekki verið meiri á Húsavík í vetur. Mynd: JS
Snjóþyngsli hafa ekki verið meiri á Húsavík í vetur. Mynd: JS

Mönnum ber saman um að ekki verið meiri snjór á Húsavík í vetur en nú í dag eftir stórhríðarveður og hvassviðri í gærkvöldi og nótt. Björgunarsveitarmen voru á þönum í bænum til að aðstoða fólk og sinna verkefnum sem upp komu og stóðu að venju vaktina með heiðri og sóma. Tunnur fuku víða og fleira lauslegt, en engar fregnir höfum við af verulegu tjóni.

Skaflar hlóðust upp og sumstaðar með nokkuð afbrigðilegum hætti. Þannig þurfi nánast níræður bæjarbúi að moka sig út úr húsi sínu bakdyramegin, sem hann segir allt að því einsdæmi  í ríflega álfa öld. Og dæmi voru um að fennti með öllu fyrir svaladyr og fleiri útgönguleiðir. 

Það var snarvitlaust veður í bænum snemma í morgun og Borgarhólsskóli sendi frá sér tilkynningu þar sem foreldrar voru hvattir til að að halda börnum sínum heima í dag væri þess nokkur kostur, enda veðurhæð mikil, blinda og víða ófærð í bænum. En svo um 10 leytið datt eiginlega allt í dúnalogn, stytti upp og sólin var farin að skína skömmu fyrir hádegi. JS

Nýjast