Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt ráðningarsamning nýs bæjarstjóra. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri mun fá 1.150.000 kr. í föst dagvinnulaun og fær auk þess greitt stjórnendaálag sem nemur 45% af mánaðarlaunum. Það gerir tæplega 1,7 milljónir kr. í heildarlaun.
Stjórnendaálag er þóknun fyrir unna yfirvinnu og allt áreiti utan dagvinnutíma, undirbúning, ferðatíma, móttökur gesta og hvað annað vinnuframlag sem til fellur utan dagvinnutíma. Mánaðarlaun bæjarstjóra taka breytingum samkvæmt launavísitölu í janúar og júlí ár hvert.
Þá kemur einnig fram í ráðningarsamningnum að bæjarstjóri fái ekki greitt sérstaklega fyrir setu á fundum bæjarstjórnar, bæjarráðs eða öðrum fundum fastanefnda Akureyrarbæjar.
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á kjörtímabilinu er þrír mánuðir. Samkomulag er um að við starfslok í lok kjörtímabils verði laun greidd á uppsagnarfresti í þrjá mánuði og að auki þriggja mánaða biðlaun.
Bæjarráð Akureyrar hefur vísað ráðningarsamningnum til staðfestingar í bæjarstjórn.