Fækka má umferðarslysum um 1000 á ári með nýjasta öryggisbúnaði

Miklar framfarir hafa orðið í þróun öryggisbúnaðar bíla síðustu árin, bæði í búnaði sem dregur úr hættunni á umferðarslysum og búnaði sem verndar þá sem lenda í umferðarslysum. Má leiða líkur að því að hægt væri að fækka umferðarslysum á Íslandi um ríflega 1000 á ári hverju og fækka alvarlegum umferðarslysum enn meira ef allur bílafloti landsmanna væri búinn nýjasta öryggisbúnaði.  

Miðað við erlendar rannsóknir á notkun stöðuleikastýringar (ESC, ESP, eða önnur sambærileg kerfi) minnka líkur á umferðaróhappi um 15% sé slíkur búnaður til staðar. Tiltölulega stutt er síðan bílaframleiðendur fóru að nýta þessa tækni að verulegu marki, en hún er í dag orðin staðalbúnaður í langflestum nýjum bílum sem seldir eru hér á landi. Ef tekið er tillit til annars öryggisbúnaðar, t.d. ABS-bremsukerfa, spólvarna og veltivarna, sem einnig leiða til fækkunar slysa, er líklegt að slysum myndi fækka enn meira ef allir bílar væru búnir nýjasta búnaði.

Meðalfjöldi umferðarslysa hér á landi síðustu fimm árin er 7.264 á ári. Varfærin áætlun, sem miðar einungis við 15% fækkun slysa, þýðir að slysum gæti fækkað hér á landi um rúmlega 1.000 á ári ef allir bílar væru búnir nýjasta öryggisbúnaði. En nýjasti öryggisbúnaður bíla snýr ekki bara að því að fækka slysum, heldur líka vernda farþega bílanna betur ef til umferðarslysa kemur. Að meðaltali urðu 144 alvarleg slys hér á landi á ári síðustu fimm ár og myndi þeim fækka um ríflega 21 á ári ef einungis er horft til 15% fækkunar. En þar sem farþegarými nýrra bíla veita nú mun meiri vernd en í eldri bílum má leiða líkum að því að alvarlegum slysum myndi fækka enn meira en um 21 á ári ef allir bílar væru búnir nýjasta öryggisbúnaði.

„Með tilkomu Euro NCAP, sem er óháð stofnun sem tekur alla nýja bíla í ítarlegar árekstrarprófanir, hafa bílaframleiðendur sett aukinn kraft í þróun öryggisbúnaðar og náð verulegum árangri. Með því að skoða rannsóknir Euro NCAP nokkur ár aftur í tímann sést greinilega hvernig nýjustu bílarnir skora markvert hærra í öllum öryggisþáttum, hvort sem litið er til öryggis bílstjóra, farþega, barna eða annarra vegfarenda," segir Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB.

Bílafloti Íslendinga er með þeim elstu sé miðað við nágrannaþjóðir okkar, en meðalaldur bíla hér á landi er 10,2 ár á móti 8,5 í löndum Evrópusambandsins. „Það er ekki síst út af örygginu sem við Íslendingar ættum að hafa áhyggjur af því að bílafloti okkar endurnýist ekki með eðlilegum hætti í núverandi efnahagsástandi. Öll viljum við fækka umferðarslysum og minnka líkurnar á að fólk slasist alvarlega og einn lykilþátturinn í því er að íslenskir bílar séu sem flestir búnir nýjasta öryggisbúnaði. Þetta öryggi fæst því miður ekki í gömlum bílum," segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Öryggismálin verða í brennidepli á opnu húsi sem haldið verður hjá flestum bílaumboðum landsins laugardaginn 10. apríl. Opna húsið er liður í átakinu Bílavor 2010 sem Bílgreinasambandið hefur staðið fyrir síðan í mars. Í síðasta mánuði var lögð áhersla á umhverfismál og þær miklu breytingar sem orðið hafa á eldsneytiseyðslu og útblæstri bíla síðustu tíu ár. Þennan mánuðinn er fjallað sérstaklega um öryggismál en þriðji og síðasti opni dagurinn verður svo laugardaginn 8. maí þegar megináhersla verður lögð á þjónustuna í bílgreininni, hvernig tækninni hefur fleygt fram og fyrirtækin lagað sig að því með menntun og tækjabúnaði. Átakið miðar að því að auka jákvæða umræðu um bílamarkaðinn með fræðslu og fróðleik þar sem dregið er fram mikilvægi bílgreinarinnar og þess að eðlileg endurnýjun eigi sér stað í bílaflota landsmanna.

Nýjast