Fæðingum fjölgar

Alls 240 börn hafa fæðst á Sjúkrahúsinu á Akureyri það sem af er ári. Drengir eru í meirihluta eða 125 á móti 115 stúlkum. Á sama tíma í fyrra voru fæðingarnar alls 225 og því fjölgun á milli ára. „Það er búið að vera heldur líflegra hérna hjá okkur í ár en í fyrra sem er mjög gleðilegt,“ segir Edda Guðrún Kristinsdóttir, aðstoðardeildarstjóri á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Edda segir að allt stefni í meðalfæðingarár á sjúkrahúsinu. „Líklega verða fæðingarnar aðeins fleiri en í fyrra. Þá voru þær 404, sem er undir meðaltalinu en í ár á ég von á því að fæðingarnar verði á bilinu 420-430,“ segir Edda Guðrún.

throstur@vikudagur.is

Nýjast