Eyþór Ingi Jónsson bæjar- listamaður Akureyrar

Eyþór Ingi Jónsson organisti í Akureyrarkirkju er bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012 og hlýtur hann sex mánaða starfslaun listamanns. Þetta var tilkynnt á Vorkomu Akureyrarstofu, sem fram fór í Ketilhúsinu í dag. Alls bárust hátt í annan tug umsókna um starfslaunin og komu þær úr mörgum listgreinum.   

"Eyþór Ingi flutti til Akureyrar fyrir átta árum og hefur helgað sig nær algjörlega uppbyggingu á tónlistarstarfi við Akureyrarkirkju, með áherslu á kórsöng í hæsta gæðaflokki. Kammerkórinn Hymnodiu þarf vart að kynna en hann hefur vakið mikla athygli fyrir fjölbreytt efnisval, fágaðan söng og eftirminnilega framkomu. Minnast má sérstaklega á flutninginn á Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, sem vakti mikla athygli og verður myndband með flutningnum framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í ár. Einnig er rétt að nefna Kammerkórinn Ísold sem skipaður er ungum konum og hefur hann vakið athygli ekki síst með tilliti til nýrra og ótroðinna slóða sem Eyþór Ingi fer í kórspuna og eru flestar algjörlega hans eigin sköpun," sagði Halla Björk Reynisdóttir formaður stjórnar Akureyrarstofu m.a. í ávarpi sínu, er hún kynnti niðurstöðuna.

Athafna- og nýsköpunarviðurkenning Akureyrarbæjar var nú veitt í annað sinn og að þessu hlutu viðurkenninguna félagasamtökin Grasrót Iðngarðar, sem sett voru á laggarnir í framhaldi af efnahagshruninu haustið 2008. Þá hlaut Skíðaþjónustan Athafnaviðurkenningu Akureyrarbæjar en Skíðaþjónustan er fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið starfrækt á Akureyri í yfir þrjátíu ár. Þá voru veittar fjórar heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs á Vorkomu Akureyrarstofu. Þær hlutu Haukur Tryggvason á Græna hattinum, söngkonan Helena Eyjólfsdóttir, tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson og listamálarinn Óli G. Jóhannsson heitinn. Óli lést í lok janúar sl. en það voru dætur hans Hjördís og Hrefna sem tóku við viðurkenningunni.

Viðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir byggingalist árið 2011 hlaut Þrumutún 4. Byggingastjóri hússins er Þorsteinn Jökull Vilhjálmsson og hófst bygging þess árið 2006.  Húsið er hannað af norska arkitektinum Tommie Wilhelmsen. Eigendur hússins eru Sara Stefánsdóttir og Ásgeir Már Ásgeirsson. Viðurkenningar húsverndarsjóðs Akureyrarbæjar hlutu eigendur Þingvallastrætis 2 og Hafnarstrætis 88. Húsið í Þingvallastræti 2 er byggt árið 1930 og er teiknað af Tryggva Jónatanssyni múrarameistara á Akureyri. Endurbætur á Þingvallastræti 2 fóru fram á árunum 1996-2007 var húsið allt meira eða minna endurnýjað. Eigandi hússins er Gísli Gunnlaugsson.

Húsið að Hafnarstræti 88 er aldamótahús, fullbyggt árið 1900. Sagan segir að húsið sé byggt fyrir síldargróða eins sumars og var þar á ferðinni Bergsteinn Björnsson, timburmaður sem kom til Akureyrar og stundaði hér aðallega síldarútgerð og kaupskap. Eigendur að Hafnarstræti 88 eru; Dóra Hartmannsdóttir, Sigurkarl Aðalsteinsson, Jón Hansen, Tryggvi Már Ingvason og Friðbjörg Sigurjónsdóttir, Hartmann Eymundsson, Sigmundur Einarsson, Björn Sveinsson og Hörður Hafsteinsson en Kolbeinn Gíslason mætti fyrir hönd Harðar. Byggingastjóri við endurbætur hússins var Hólmsteinn Snædal og hann kom einnig að endurbótum á Þingvallastræti 2, ásamt mörgum öðrum.

Nýjast