26. nóvember, 2007 - 19:36
Stjórn Eyþings, sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, mótmælir harðlega fyrirhuguðum skipulagsbreytingum hjá Umhverfisstofnun sem m.a. fela í sér verulegar breytingar varðandi Veiðistjórnunarsvið stofnunarinnar, sem staðsett er á Akureyri. Fyrir liggur að yfirmanni Veiðistjórnunarsviðs (veiðistjóra) hefur verið gert að flytja til Reykjavíkur eða að öðrum kosti taka við lægri stöðu, segir í bókun stjórnar Eyþings. Fleiri stofnanir og útibú á vegum ríkisins eru staðsett á Akureyri. Fram hafa komið vísbendingar um tilfærslur fleiri starfa til Reykjavíkur, t.d. hjá Jafnréttisstofu. Einnig má minna á að dregið hefur verið úr starfsemi á vegum ríkisins víðar á starfssvæði Eyþings á næstliðnum árum. Ólíðandi er að forstöðumenn ríkisstofnana gangi þvert á samþykkta stefnu stjórnvalda og jafnvel rýri þann litla árangur sem náðst hefur í dreifingu verkefna og starfa á vegum ríkisins. Stjórn Eyþings skorar á þingmenn Norðausturkjördæmis og ríkisstjórn að fylgjast grannt með framvindu þessara mála og standa vörð um þá stefnu sem stjórnvöld hafa markað.