Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju og formaður Starfsgreinasambands Íslands flutti hátíðarræðu á fundi stéttarfélaganna í Skagafirði í dag, sem haldinn var í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Hann sagði nauðsynlegt á frídegi verkalýðsins að rifja upp þann mikla árangur sem verkalýðsbarátta í heila öld hefur skilað íslensku launafólki.
Hér eru vinnuaðstæður og réttindi launafólks með því besta sem gerist í heiminum og fyrir það ber að þakka, en þessi ríku réttindi sem launamenn hér á landi hafa, féllu ekki af himnum ofan. Það er áberandi að yngra fólkið er ekki að velta því fyrir sér hvernig réttindin hafa komist á, það voru afar okkar og ömmur sem börðust af einurð og festu fyrir bættum kjörum og réttindum komandi kynslóða og baráttan kostaði blóð, svita og tár. Við megum aldrei sofna á verðinum, heldur standa vörð um það sem áunnist hefur í baráttunni um leið og við sækjum fram, verkalýðsbarátta er eilífðarbarátta.
Einfalt reikningsdæmi
Verkfallsaðgerðir aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni hófust í gær. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaganna og hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Björn sagði að launakjörin á Íslandi verði að vera sambærileg við aðrar þjóðir.
Þetta er svo einfalt reikningsdæmi, þegar við horfum á þjóðflutninga íslensks launafólks til annarra landa á undanförnum árum. Nú ætla launþegar að rétta sinn hlut, exelskjöl lögfræðinga og hagfræðinga vinnuveitenda breyta engu þar um.
Verkalýðshreyfingin á að láta byggðamál sig varða
Björn sagði að landsbyggðin ætti á margan hátt undir högg að sækja, höfuðborgarsvæðið sogi til sín fólk og fjármuni.
Skagfirðingar og Eyfirðingar þekkja ágætlega umræðuna, þegar lagt er til að flytja opinber störf út á land. Við viljum byggja landið allt og það þýðir að dreifa verður opinberum störfum. Það segir sig sjálft, ekki nægir að setja sér göfug markmið í þessum efnum. Skagfirðingar og Eyfirðingar hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta og við eigum að íhuga möguleikana á enn frekari samvinnu í þessum málum, verkalýðshreyfingin getur beitt sér víða. Verkalýðshreyfingin á að láta byggðamál sig varða, sagði Björn Snæbjörnsson í ræðu sinni á Sauðárkróki í dag.