Evrópustofa opnar útibú á Akureyri á morgun, mánudaginn 7. maí, Starfsemin verður til húsa hjá Norrænu upplýsingaskrifstofunni í Deiglunni í Gilinu. Samhliða opnum skrifstofunnar verður opnuð plakatasýning á Glerártorgi, með upplýsingum um Evrópusambandið í máli og myndum og hvernig það starfar. Evrópustofa er upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins og var skrifstofan í Reykjavík opnuð í lok janúar sl. Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastýra Evrópustofu, segir að hlutverk stofunnar sé að veita upplýsingar um sambandið og hvernig það starfar. Þannig getum við vonandi aukið þekkingu og skilning almennings á Evrópusambandinu. Við erum mjög spennt að koma hingað norður og erum mjög ánægð með það samstarf sem er að hefjast við Norrænu upplýsingaskrifstofuna og Norræna félagið um að standa sameiginlega að upplýsingamiðstöð í Gilinu. Það verður opið hér eins og áður, alla virka daga milli kl. 13 og 16. María Jónsdóttir forstöðukona hér mun standa vaktina, taka á móti fólki og bjóða gestum það upplýsingaefni sem er í boði. Hún verður svo í nánu sambandi við okkur fyrir sunnan og við munum reyna að leysa allar þær fyrirspurnir sem hingað berast eftir bestu getu, sagði Birna.
Hún sagði að leitað væri til Evrópustofu eftir ýmsum leiðum, fólk kemur í heimsókn, hringir eða sendir tölvupósta. Við höfum gert svolítið af því að taka á móti hópum. Birna segir að ekki sé hægt að komast að upplýstri niðurstöðu um þetta ferli nema allar upplýsingar séu uppi á borðum. Við teljum okkur hafa mikilvægt hlutverk í því ferli. Það er mikilvægt að fólk geti sótt sér upplýsingar frá sem flestum stöðum og lagt sitt mat á þær.