Evrópuhlaup fatlaðra til Akureyrar

Evrópuhlaup fatlaðra nær til Akureyrar nk. miðvikudag þegar um 80 þroskaheftir einstaklingar koma hlaupandi inn á Ráðhústorg. Þetta er í 9. sinn sem hlaupið er haldið og eru þátttakendur frá Austurríki, Þýskalandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Póllandi, Rúmeníu og Úkraínu. Hlaupnir hafa verið um 1.000 km frá því átakið hófst árið 1999. Fram til þessa hefur verið hlaupið í Austurríki, Tékklandi, Þýskalandi, Póllandi, Úkraínu, Ungverjalandi, Króatíu, Ítalíu, Grikklandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Slóvakíu, Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Svæðið sem þau hafa farið yfir er um 8.050 km. Næsti áfangi í þessu hlaupi er nú þegar hafinn og verður þá farið um Noreg, Svíþjóð, Færeyjar, Ísland og Danmörku. Hlaupið er haldið til þess að vekja athygli á fötluðum einstaklingum í samfélaginu auk þess að sameina fatlaða og ófatlaða og tengja þá sterkari böndum. Fyrir þá sem hlaupa er Evrópuhlaupið góð leið til þess að auka bæði líkamlega og andlega velferð, sem og að stofna til vináttusambanda víða um heim. Slagorð hlaupsins eru: „Við erum eins" - sem er táknrænt fyrir aðlögun allra hópa í hverju samfélagi, „Náðu árangri með okkur" - sem er táknrænt fyrir þá gleði sem fylgir því að taka þátt í íþróttum, „Evrópa - við erum nú þegar sameinuð" - sem er táknrænt fyrir samhug evrópskra þegna.

Akureyrarbær tekur á móti hlaupurunum á Ráðhústorgi og munu félagar úr íþróttafélaginu Eik hlaupa með þeim síðasta spölinn, en morguninn eftir leggur fólkið af stað til Reykjavíkur.

Nýjast