Akureyrarbær tekur þátt í vikunni með fjölbreyttum viðburðum. Aðalviðburður vikunnar verður svokallað Aðgengisstroll, sem haldið verður í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár, miðvikudaginn 17. september kl. 16.30. Farið verður frá Lystigarðinum að Íþróttahöllinni, um 400 metra leið. Á bílaplaninu við Íþróttahöllina verður boðið upp á grillaðar pylsur og samtal um upplifun þátttakenda. Þar verður einnig aðgengilegur strætisvagn til sýnis og gestum gefst tækifæri til að prófa að fara yfir minni hindranir í hjólastól undir leiðsögn Sjálfsbjargar. Bæjarfulltrúar munu fara leiðina í hjólastólum sem Sjálfsbjörg útvegar og öðlast þannig innsýn í daglega reynslu fólks með skerta hreyfigetu. Öll eru velkomin til að taka þátt og ræða saman um aðgengi og hindranir í nærumhverfinu.
Alla vikuna stendur yfir skemmtilegur leikur fyrir fjölskyldur. Með því að leysa verkefni tengd hreyfingu og útivist er hægt að safna stigum og senda mynd af fjölskyldunni í útivist ásamt stigafjölda á netfangið samgonguvika@akureyri.is. Allar fjölskyldur sem taka þátt fara í happdrættispott og geta unnið lýðheilsukort fyrir alla fjölskylduna auk fjölda annarra vinninga. Dregið verður þriðjudaginn 23. september.
Vikan lýkur með bíllausa deginum mánudaginn 22. september og eru bæjarbúar hvattir til að skilja bílinn eftir heima og velja í staðinn vistvænar samgöngur.
Tökum þátt – fyrir samfélagið, heilsuna og umhverfið!
Vefur Akureyrarbæjar sagði frá