Nöfn og titlar skipta máli. Sérstaklega að því er virðist þegar um er að ræða íslenskar kvikmyndir. Síðustu mánuði hafa þrjár myndir verið að vinna til verðlauna víða um heim, sem sé Hrútar, Þrestir og Hross í oss. Nú, skemmst er svo að minnast eldri verðlaunamynda á borð við Hrafninn flýgur og Benjamín dúfa.
Og þetta á ekki bara við um þekktustu íslensku kvikmyndirnar og þær sem hafa unnið til verðlauna. Einnig má nefna myndirnar: Hvítir máfar. Foxtrot (fox þýðir jú refur). Eins og skepnan deyr. Perlur og svín. Falskur fugl. Reykjavík Whale Watching Massacre. Fálkar. Didda og dauði kötturinn. Mávahlátur. Gæsapartí.
Við þetta má svo bæta myndum á borð: Hadda Padda (svolítið langsótt reyndar!) og Litla lirfan ljóta. Var að hugsa um að hafa Engla alheimsins á þessum lista, en lenti þar í tegundagreiningavanda, þannig að ég sleppti þeim.
Ætli í kvikmyndasögu nokkurrar annarrar þjóðar sé að finna hlutfallslega svo margar „dýramyndir?“ Ja, eða alla vega kvikmyndir sem draga nöfn af málleysingum af margvíslegu tagi. Og sjálfsagt eiga þessar íslensku dýrakvikmyndir líka eitt annað en nöfnin sameiginlegt, sem sé að þær hafa örugglega verið ódýrari í framleiðslu en flestar bíómyndir í útlöndum. JS