Ragnheiður Gunnarsdóttir er eflaust betur þekkt sem kattakonan á Akureyri. Frá sex ára aldri hefur hún lagt mikla ást á kisur og hefur undanfarin ár rekið Kisukot á heimili sínu í sjálfboðavinnu. Þar eru fjölmargir heimilislausir kettir og þeim kemur ágætlega saman. Ég eignaðist minn fyrsta kött þegar ég var sex ára og allar götur síðan hefur mér þótt vænt um ketti. Fjölskyldan var yfirleitt með þrjá ketti á heimilinu þangað til ég varð 16 ára. Þá fór ég að bjarga heimilislausum köttum og við það fjölgaði þeim. Ég tók ekki alla að mér, heldur kom þeim flestum á önnur heimili. Það er ekki hægt að bæta endalaust við. Það er heilmikil vinna að sjá um allar kisurnar. Það þarf að þrífa eftir dýrin, fara með þau til dýralæknis og gefa þeim að borða.
Mörg símtöl á dag
Ég fæ oft mörg símtöl á dag. Sumir eru að leita sér að ketti, aðrir vilja losna við kött og enn aðrir sáu villikött eða urðu vitni að því að ekið var á kött. Erindin eru mörg.
-Ertu þekkt sem kattakonan í bænum?
Já, ég held það. Það vita ansi margir hver ég er, segir Ragnheiður og hlær, en hún er titluð kattakona í símaskránni. Þetta byrjaði eiginlega sem grín á sínum tíma, áður en ég stofnaði Kisukot. Ég ákvað að halda þessu bara.
Nánar er rætt við Ragnheiði í prentútgáfu Vikudags