Rúmlega 500 nemendur svöruðu könnunni og af þeim sögðust tæp 35% ekki vera komnir með vinnu í sumar og 19 % sögðust vera komnir með hlutastarf eða vinnu hluta úr sumri. Alls voru rúm 46% sem sögðust vera komin með fulla vinnu í allt sumar. Þess skal einnig getið að ekki reyndist marktækur munur á milli útskriftarnema og annara nema hvað þetta varðar.
Svipað hljóð er í Halldóri Óla Kjartanssyni, formanni Þórdunu, nemendafélags VMA. „Það er eitthvað um atvinnuleysi hjá ungu fólki, mun fleiri en venjulega eru að sækja vinnu víðar um landið og margir sem hafa unnið hjá Akureyrarbæ segjast ekki hafa fengið vinnu þar aftur vegna þess að atvinnulausir ganga fyrir, ekki nemendur, sem eru jú atvinnulausir líka. Ég veit að margir nemendur eru að reyna að sækjast eftir atvinnuleysisbótum sem eru ekki heldur í boði fyrir ungt fólk, þetta virkar á mann eins og hugsunin sé að unga fólkið þurfi ekki vinnu eins og þeir eldri," sagði Halldór.
Axel Ingi Árnason formaður Hugins, nemendafélags MA tók í sama streng og kollegar hans og sagði að margir nemenda skólans ættu í erfiðleikum með að finna sumarvinnu. Ætlunin sé að kanna málið formlega með könnun á vef skólans og segist hann bíða niðurstöðunnar spenntur.
Fjöldi umsókna í ár í Vinnuskóla 14-15 ára barna voru um 420 talsins samanborið við 366 á síðasta ári og aukningin því umtalsverð. Sömu sögu er að segja í Vinnuskólanum fyrir 16 ára unglinga, alls bárust um 173 umsóknir í ár en í fyrra voru 113 unglingar við störf hjá bænum á þessum aldri.
Að sögn Orra Stefánssonar, forstöðumanns Vinnuskólans hafa menn þurft að minnka vinnuhlutfall vegna sparnaðar. „Allir unglingar til heimilis á Akureyri sem sækja um vinnu hjá Vinnuskólanun fá vinnu. Vinnuskólinn hefur þurft að mæta breyttum aðstæðum með skerðingu á vinnustundum hjá unglingunum. Helstu breytingarnar eru þær að í sumar mun Vinnuskólinn vera starfræktur 4 daga vikunnar í stað 5, frá mánudegi til fimmtudags og að auki mun vinnutími yfir daginn styttast," sagði Orri.