Nú eru hafnar endurbætur á hreinsivirki verksmiðjunnar og vonast er til að framleiðsla hefjist á ný þegar markaðir glæðast.
Þá má nefna að ekki hefur verið ráðið í störf sem hafa losnað undan farin misseri. „Þetta fólk eru með mismunandi langan uppsagnarfrest. Þeir fyrstu hætta núna um mánaðamótin en þetta er frá einum og upp í þrjá mánuði sem fólk er með í uppsagnarfrest,“ segir Aðalsteinn og bætir við að fjölmennasti hópurinn missi vinnuna núna í lok mánaðarins.
Aðalsteinn segir að ekki séu komnar fram áreiðanlegar tölur um fjölda atvinnulausra á svæðinu, m.a. vegna sumarleyfa hjá Vinnumálastofnun en bendir á að undanfarið hafi verið um 300-400 atvinnulausir eða á hlutabótaleið stjórnvalda. Þessar tölur eigi eftir að hækka. „Það er undirliggjandi atvinnuleysi,“ segir hann.
Á sama tíma og atvinnuleysi er að aukast mikið á svæðinu kvarta atvinnurekendur á svæðinu um að illa gangi að ráða í störf. Sérstaklega er vöntun á starfsfólki í hótel og veitingageiranum og hafa margir gefist upp á því að auglýsa eftir fólki. „Að sjálfsögðu á enginn að vera á atvinnuleysisbótum bjóðist honum starf við sitt hæfi og við höfum verið að aðstoða þetta fólk sem er búið að missa vinnuna m.a. með því að bjóða því tímabundin störf hjá sláturhúsunum á svæðinu í sláturtíð,“ segir Aðalsteinn og kallar eftir því að starfsemi Vinnumálastofnunnar verði efld. Aðalsteinn bendir á að hann sé nú þegar búinn að skrifa upp á nokkur atvinnuleyfi hjá fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins á sama tíma og hér sé bullandi atvinnuleysi.
Aðalsteinn bendir á að jákvæðir hlutir hafi verið að gerast í ferðaþjónustunni á svæðinu saman ber það sem að ofan er ritað um að ferðaþjónustuaðilar leiti að starfsfólki. Hann segir að Húsavík hafi hreinlega verið einn heitasti áfangastaður ferðamanna hér á landi það sem af er sumri og að veitingahús séu dag eftir dag full út úr dyrum. „En svo er hætt við að þetta detti niður í september, þá kemur höggið og við getum búið okkur undir erfiðan vetur. Við verðum bara að koma okkur í gegnum þetta með samtakamætti okkar,“ segir Aðalsteinn og tekur fram að hann sé bjartsýnn á að það takist.